Foreldrafélag

Í Aðalnámskrá grunnskóla (1999) segir að samstarf skóla og heimila eigi að vera á þremur sviðum, samstarfið um skólann sem stofnun, samstarfið um einstaka hópa eða bekki og loks samstarfið um hvert einstakt barn og skuli megináherslan vera á síðastnefnda þáttinn. Allir geta verið sammála um að ekkert sé foreldrum dýrmætara en velferð barna þeirra og fjöldi rannsókna segir okkur að það séu óumdeilanlega foreldrarnir sem hafi mest áhrif á líf barnanna þ.á.m. nám og líðan. Ábyrgð foreldra er því mikil. Góðir foreldrar láta sig varða um allt sem lýtur að velferð barna sinna og eiga hlutdeild í öllum mikilsverðum ákvörðunum sem snerta barnið. Það á einnig við um starf barnsins í skólanum. Einn veigamesti stuðningsaðili foreldra í uppeldi og menntun barnsins er skólinn. Auk vaxandi mikilvægis menntunar hefur skólasamfélagið umtalsverð áhrif á félagslega stöðu og þróun sjálfsmyndar barnsins. Velferð barnsins verður best tryggð þegar hinir fullorðnu standa saman um hagsmuni barnsins og stefna í sömu átt. Það veitir barninu aukið öryggi að finna gagnkvæmt traust og virðingu milli hinna fullorðnu og samræmi í gildum og væntingunum heima fyrir og í skólanum. Eðlilegt er að samstarf foreldra og kennara snúist um markmið og inntak námsins, kennsluhætti, heimanám, samskipti, líðan og hegðun.

Gott samstarf einkennist af gagnkvæmum upplýsingum um stöðu barnsins, samræðu, samvinnu þar sem stefnt er að sameiginlegu markmiði sem báðir/allir aðilar taka ábyrgð á. Í samstarfinu er kennarinn leiðtogi á jafnræðisgrunni þar sem foreldrar hafa réttindi jafnt sem skyldur. Markmið samstarfsins er velferð barnsins þíns. Til að styðja barn þitt getur þú:

 • Sýnt áhuga á starfi barnsins og líðan í skólanum með því að spyrja það.
 • Hvatt barnið til gera sitt besta og styðja það eftir þörfum Verið vakandi fyrir því sem barnið gerir vel og hrósa því
 • Talað jákvætt um nám, samskipti og starfið í skólanum
 • Aflað upplýsinga frá skólanum ef eitthvað er óljóst
 • Veitt kennaranum upplýsingar sem komið geta barninu að notum
 • Kynnt þér upplýsingar um starf bekkjarins/nemendahópsins og skólans
 • Leitað leiða til að kynnast skólafélögum barnsins og foreldrum þeirra

Hvað er Foreldrafélag ?

Hlutverk

Með nýjum lögum um grunnskóla nr. 91/2008 urðu þær breytingar að foreldrafélög eru lögbundin og skulu starfa við alla grunnskóla. Skólastjóri er ábyrgur fyrir stofnun þess og sér til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Hlutverk foreldrafélags er að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla.
Foreldrafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð.

Starfshættir

Til að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla getur foreldrafélagið lagt sitt af mörkum með ýmsum hætti:

 • Með verkefnum sem stuðla að vellíðan og velferð nemenda og bættum námsárangri
 • Með verkefnum sem styrkja skólabraginn
 • Vera virk og taka vel í þátttöku í skólastarfinu
 • Hvetja og hrósa fyrir það sem vel er gert
 • Bjóða upp á vettvang fyrir foreldra til að fræðast um og ræða sameiginleg hagsmuna-eða áhugamál
 • Virkja alla foreldra til þátttöku í samstarfi
 • Skipuleggja og halda utanum formlegt samstarf á bekkjarplani
 • Sjá til þess að sameiginleg verkefni foreldrafélagsins séu framkvæmd og allir virkjaðir til þátttöku
 • Foreldrafélag skulu setja sér starfsreglur, þ.m.t
 • hvernig standa á að kosningu í stjórn félagsins
 • hvernig standa á að kosningu fulltrúa foreldra í skólaráð

Eðlilegt er að fulltrúar eða stjórn foreldrafélags móti drög að slíkum starfsreglum. Þær séu síðan kynntar á aðalfundi og bornar undir atkvæði fundarins.
Foreldrar grunnskólabarna eru sjálfkrafa félagar í foreldrafélagi viðkomandi skóla meðan á skólagöngu barna þeirra stendur.
Foreldrafélagið getur óskað eftir frjálsum framlögum félagsmanna en ekki er hægt að skylda foreldra til að greiða félagsgjöld. Mikilvægt er að gera foreldrum grein fyrir hvernig framlögin eru notuð.

Stjórn foreldrafélagsins

ber ábyrgð á samstarfi, skipulagningu og skiptingu verkefna gagnvart bekkjarfulltrúum. Bekkjarfulltrúar bera ábyrgð á skipulagningu og skiptingu verkefna gagnvart foreldrum
Mótar stefnu – áherslur í starfi – í samráði við skólastjórnendur,bekkjarfulltrúa/foreldra/nemendafélag
Gerir starfsáætlun – drög lögð fyrir samstarfsaðilana
Hefur eftirlit með framkvæmd verkefna starfsáætlunar
Heldur utan um gögn, pappír og rafræn
Ber ábyrgð á að nýjir fulltrúar taki við kyndlinum

Starfsáætlun

Mikilvægt er að starfsáætlunin taki mið af áhugasviði, þekkingu og reynslu skólasamfélagsins.

Dæmi um starfsáætlun:

Júní
Lok maí/byrjun júní fyrsti fundur nýrrar stjórnar með fráfarandi stjórn, stjórnarmenn skipta með sér verkum, leggja fyrstu drög að starfsáætlun
Ágúst
Stjórnarfundur, fundartímar stjórnar ákveðnir, bekkjarfulltrúafundur undirbúinn (haldinn áður en námsefniskynningar byrja), foreldrarölt skipulagt, kynning f. foreldra 6 ára barna/kosning bekkjarfulltrúa í 1. bekk
September
Stjórnarfundur; skólastjóra, umsjónarmanni félagsstarfs boðið, drög að starfsáætlun foreldrafélagsins rædd. Í byrjun september fulltrúaráðsfundur, hlutverk bekkjarfulltrúa skýrt, drög að starfsáætlun rædd. Stjórn kynnir starfið á námsefniskynningu, bekkjarfulltrúar ræða vetrarstarfið í sínum bekk. Skólafærninámskeið fyrir foreldra 6 ára barna – fulltrúar foreldrafélagsins taka þátt.
Október
Stjórnarfundur, samráðsfundur með skólaráði.
Nóvember
Stjórnarfundur, undirbúningur og framkvæmd bekkjarfulltrúafundar, farið yfir starfið, undirbúa og framkvæma jóla- eða aðventutengt verkefni.
Desember
Stjórnarfundur
Janúar
Stjórnarfundur, skólastjóra, umsjónarmanni félagsstarfs boðið, undirbúningur og framkvæmd bekkjarfulltrúafundar
Febrúar
Stjórnarfundur, samráðsfundur með skólaráði
Mars
Stjórnarfundur, huga að aðalfundi
Apríl
Stórnarfundur, undirbúningur og framkvæmd bekkjarfulltrúafundar, hverjir gefa kost á sér áfram, bekkjarfulltrúar og stjórnarmenn? Búið að finna fólk (stjórnarmenn og bekkjarfulltrúa) sem vill gefa kost á sér FYRIR aðalfund, kynna í fundarboði
Maí
Lok apríl/byrjun maí aðalfundur; skýrsla stjórnar (nefnda), skýrsla fulltrúa foreldra í skólaráði, kosningar stjórnarmanna og fulltrúa foreldra í skólaráð.

Skipulagning foreldrastarfs

Ýmsar leiðir hafa verið farnar í skipulagningu foreldrastarfs og hafa þær kosti og galla. SAMFOK mælir með því að það sé alltaf haft að leiðarljósi að sem flestir foreldrar séu virkjaðir til þátttöku. Með virkri þátttöku kynnast foreldrar öðrum foreldrum og börnum þeirra og þekking þeirra á skólastarfinu eykst. Rannsóknir sýna að sterkt tengslanet foreldra stuðlar að betri líðan allra nemenda í bekknum, betri námsárangri og minni líkur eru á að þeir nemendur velji neyslu áfengis og annarra vímuefna.

Mikilvægt er að sameiginlegum verkefnum foreldrafélagsins, t.d. haust- eða vorgleði, aðventukvöldi eða jólaföndri, öskudagsgleði, páskabingói, sé skipt niður á alla foreldra í skólanum. Auk þess skipti bekkjarfulltrúar verkefnum innan bekkjarins (bekkjarkvöldum, gönguferðum, skipulagningu og utanumhaldi á vinahópum, heimsóknum foreldra í bekkinn o.s.frv.) niður á foreldra. Með þessum hætti er hægt að tryggja að allir foreldrar komi að undirbúningi og framkvæmd eins verkefnis yfir veturinn.

9. grein grunnskólalaganna-Foreldrafélag

Foreldrafélag
Samkvæmt 9.grein grunnskólalaganna sem tóku gildi 1.júlí 2008, þá skal starfa foreldrafélag við hvern skóla.

9. gr. Foreldrafélag

Við grunnskóla skal starfa foreldrafélag. Skólastjóri er ábyrgur fyrir stofnun þess og sér til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Hlutverk foreldrafélags er að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla.
Foreldrafélag hvers skóla setur sér starfsreglur, m.a. um kosningu í stjórn félagsins og kosningu fulltrúa í skólaráð.