Áheyrnarfulltrúi foreldra í skóla- og frístundaráði Reykjavíkur

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum situr í skólanefnd sveitarfélaga í samræmi við lög um grunnskóla  nr. 91 frá júní 2008, 6 gr. 4 mgr.  Skóla- og frístundaráð fundar hálfsmánaðarlega á miðvikudögum að jafnaði frá 11.00-15.00. Áheyrnarfulltrúi foreldra er með málfrelsi og tillögurétt, en hefur ekki atkvæðisrétt. Hann getur óskað eftir að setja mál á dagskrá, komið með fyrirspurnir, lagt fram tillögur og gert bókanir.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum í Reykjavík er valin í skv. 7 gr. laga SAMFOK og starfar í samræmi við erindisbréfi sem samþykkt er á aðalfundi SAMFOK, svæðasamtaka foreldra grunnskólabarna í Reykjavík.

Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum í skóla- og frístundaráði árið 2016-17 er Birgitta Bára Hassenstein, formaður SAMFOK. Varaáheyrnarfulltrúi er Kristín Helgadóttir, varaformaður SAMFOK og formaður foreldrafélags Árbæjarskóla.

Hér er yfirlit yfir fyrri áheyrnarfulltrúa foreldra í Skóla- og frístundaráði frá 2010, Menntaráði frá 2005,  áður Fræðsluráði Reykjavíkur.

Hér má nálgast spurningar og svör sem tengjast fulltrúum foreldra og skólanefndum sveitarfélaganna.

Menntamálaráðuneytið – spurningar og svör af námskeiðum fyrir skólanefndir                                  Samband íslenskra sveitarfélaga – spurningar og svör af námskeiðum fyrir skólanefndir

 

FYRIRSPURNIR.

117. fundur, 6. apríl 2017, sjá fundargerð

Á 98. fundi skóla- og frístundaráðs í ágúst var fjallað um meðferð eineltismála í skóla- og frístundastarfi. Skóla- og frístundaráð beindi því til borgarráðs að samþykkt verði að fenginn verði óháður aðili til að fara yfir verkferla starfsstöðva skóla- og frístundasviðs vegna eineltis og samskiptavanda barna. Hver er staðan á þessari vinnu ? Var þetta samþykkt ? Er óháð úttekt farin í gang ? Á skóla- og frístundasviði er starfandi ráðgjafi foreldra og skóla, skv. heimasíðu Reykjavíkurborgar vinnur hann að úrlausn eineltismála í samstarfi við foreldra og stofnanir Reykjavíkurborgar. Er haldið utan um skráningar vegna erinda foreldra, fjölda þeirra og eðli, annars vegar til ráðgjafa foreldra og skóla og hins vegar til sviðsins í heild. Eru skráningar tengdar einstökum skólum?

.
116. fundur, 22. mars 2017sjá fundargerð

Varðandi kennslu í list- og verkgreinum: Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi fyrirspurn: “Nýverið var staðfest að réttur nemenda til kennslu í list- og verkgreinum er ekki virtur. Samkvæmt útreikningum Hagstofunnar sem byggja á gögnum skólanna frá skólaárunum 2013-16 er staðan verst í Reykjavík. Þetta eru slæm tíðindi. Nemendur óska yfirleitt eftir meira verk- og listnámi. Brýnt er að bregðast við þessu því yfirmenn menntamála virðast hafa haft einbeittan vilja til að auka vægi samræmdra prófa sem getur unnið gegn yfirlýstum vilja fræðsluyfirvalda um allt land, sem er að auka einmitt vægi list- og verkgreina í grunnskólum. Framsetning á viðmiðunarstundaskrá í starfsáætlun skólanna og hvernig kennslumínútum er skipt milli námssviða er mjög ólík í grunnskólum. Það getur verið mjög erfitt fyrir m.a. fulltrúa foreldra að greina hvort að skólinn virði lágmarksrétt nemenda til kennslu í list- og verkgreinum. Hvernig hyggst skóla- og frístundaráð bregðast við þessum niðurstöðum og tryggja rétt nemenda til kennslu í list- og verkgreinum skv. lágmarksviðmiðum í aðalnámskrá?” SFS2017030155

 

108. fundur, 9. nóv. 2016, sjá fundargerð

Vegna fundarfyrirkomulags skóla- og frístundaráðs. Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum leggur fram fyrirspurn til skóla- og frístundaráðs í tengslum við fundarfyrirkomulag ráðsins. Er skóla- og frístundaráð reiðubúið til að breyta fundarfyrirkomulagi ráðsins með þeim hætti að fundarefnum ráðsins verði skipt niður, annars vegar í málefni leikskólans og hins vegar málefni grunnskóla- og frístundastarfs ? Þetta fyrirkomulag þekkist í öðrum sveitarfélögum þar sem skólanefndir hafa verið sameinaðar og reynist mjög vel. Til dæmis má nefna að á Seltjarnarnesi er fundað fyrst á morgnanna, til skiptis byrjað á málefnum leikskóla og grunnskóla, ýmist kl. 8 eða 9. Fundir ráðsins um 25 á ári, sem reiknast til ca. 5 vikna fjarveru. Fæstir eiga vinnuveitendur sem sætta sig við svo mikið vinnutap árlega. Óheppileg tímasetning og ekki síst lengd fundanna hefur þær afleiðingar að fólk veigrar sér við að taka þetta mikilvæga verkefni að sér, óháð því hvort eða hversu mikið fulltrúar fá fyrir fundarsetu og undirbúning. Auk þess má nefna að tímasetning fundanna um miðjan daginn veldur því að þeir taka lungann úr vinnudegi eða skóladegi flestra. Breytt fyrirkomulag og deildarskipting fundanna getur verið til mikillar hagræðingar fyrir alla þá lögbundnu áheyrnarfulltrúa sem fundina sitja, gert áhugasömum kleift að sinna þessum borgaralegu skyldum sínum.  ( SVAR á 114. fundi, þann 22. febrúar “Lagt fram svar sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 16. febrúar 2017, við fyrirspurn um fundartími og skipulag funda skóla- og frístundaráðs auk bréfs sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 14. ágúst 2014, varðandi skipulag funda skóla- og frístundaráðs með tilliti til þátttöku áheyrnarfulltrúa foreldra. SFS2016110083″)

28. sept. 2016, sjá fundargerð 

Um ytra mat og skóla án aðgreiningar. Í ytra mati grunnskóla Reykjavíkur er kafli um skóla án aðgreiningar, en nokkrir skólar fara í gegnum þetta mat árlega. Í stefnu skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar frá 2012 “Skóli án aðgreiningar og sérstakur stuðningur við nemendur” kemur fram að mat á framgangi og framkvæmd stefnunnar eigi að fara fram í skólum borgarinnar árlega frá og með vori 2014 og niðurstöður kynntar aðilum skólasamfélagsins. Hefur þessu verið fylgt eftir og ef svo er hvar má nálgast árlegt mat Reykjavíkurborgar á framgangi og framkvæmd stefnunnar í einstökum skólum í Reykjavík?    (11. janúar á 111. fundi “Lagt fram svar, dags. 15. desember 2016, við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa foreldra barna í grunnskólum, frá 105. fundi skóla- og frístundaráðs, varðandi skóla án aðgreiningar. Jafnframt lagt fram bréf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 22. nóvember 2016, svarvið fyrirspurn SAMFOK varðandi framkvæmd skólastefnu um skóla án aðgreiningar í Reykjavík. SFS2016090273”)

27. jan. 2016, sjá fundargerð
Varðandi tillögur starfshóps um samstarf foreldra og skóla “Á fundi skóla- og frístundaráðs í janúar 2011 voru samþykktar tilllögur starfshóps um samstarf foreldra og skóla. Hlutverk starfshópsins var m.a. að leggja grunn að stefnu menntasviðs og leikskólasviðs um samstarf foreldra og skóla. Tillögurnar fólust m.a. annars í því að á skólaárinu 2011 – 2012 yrði þess vænst að allir skólar borgarinnar gerðu samstarfsáætlun skóla og foreldra sem tæki gildi í ársbyrjun 2012 og eigi síðar en í upphafi skólaársins 2012 – 2013. Haldin voru endurmenntunarnámskeið fyrir skólastjórnendur þar sem megináhersla var á samstarf foreldra og skóla. Hversu margir grunnskólar í Reykjavík hafa gert slíka áætlun með þeim hætti sem lagt er til í tillögum starfshópsins? Hefur þessari vinnu verið fylgt eftir? Hafa áætlanirnar verið innkallaðar af sviðinu?”

25. nóv. 2015, sjá fundargerð
Vegna innleiðingar nýs námsmats í grunnskólum og gildistöku nýs einkunnakvarða við lok grunnskóla vorið 2016. “Í ár munu nemendur í 10. bekk í fyrsta sinn verða metnir skv. nýju námsmati og notast verður við einkunnakvarðann A,B,C,D. Svo virðist sem grunnskólar í Reykjavík séu mislangt á veg komnir með að innleiða nýtt námsmat. Nú þegar vel er liðið á skólaárið virðast foreldrar og nemendur í mörgum skólum ekki hafa fengið kynningu á því hvernig nemendur verða metnir í vor. Fæstir skólar virðast hafa birt á heimasíðum sínum útfærslu á námsmatinu. Þeir skólar sem hafa birt námsmatið á heimasíðum sínum, virðast ekki endilega hafa sama skilning á því hvernig skuli útfæra námsmatið. Veit skóla- og frístundasvið hvernig þessi mál standa í borginni? Hefur verið kannað í einstökum skólum borgarinnar hvernig skólarnir hyggjast haga námsmatinu í vetur og hvort og með hvaða hætti það hafi verið kynnt nemendum og foreldrum? Það er afar brýnt, svo ekki sé dýpra í árina tekið, að foreldrar og nemendur, sérstaklega í 10. bekk, fái sem fyrst nákvæmar upplýsingar um það með hvaða hætti námsmati verður háttað í vor, hvaða þættir liggja til grundvallar og hvernig lokaeinkunn í vor verður fundin. Það hlýtur að vera eðlileg krafa að þegar nemendur hefja nám að hausti að nemendum og foreldrum þeirra sé kleift að kynna sér hvernig mati á námi þeirra verður háttað. SFS2015110177”

9. sept. 2015, sjá fundargerð
Vegna innleiðingar nýs námsmats í grunnskólum og gildistöku nýs einkunnakvarða við lok grunnskóla vorið 2016. “Varðandi eftirlitsskyldu SFS. Var skipaður sérstakur stýrihópur, starfshópur eða verkefnastjóri til að styðja við og fylgja eftir innleiðingu nýrrar aðalnámskrár sem á að vera lokið á þessu starfsári ? Skv. áætlun ráðuneytisins eiga grunnskólanemendur að ljúka námi í vor skv. nýju námsmati og matskvarða, A-D. Er vitað hver staðan er varðandi innleiðingu nýrrar námskrár í einstökum hverfum eða grunnskólum borgarinnar ? “
Svar SFS til ráðsins dags. 24. sept. 2015 vegna fyrirspurnar áheyrnarfulltrúa foreldra þann 9. sept lagt fram á fundi þann 14. okt, sjá fundargerð , bls.1,bls.2,bls.3
.
.

BÓKANIR.

 

 

118. fundur, 3. maí 2017, sjá fundargerð

Liður 1. kynning á viðhorfskönnun meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar.  “Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum þakkar fyrir góða kynningu á niðurstöðum viðhorfskönnunar meðal starfsmanna Reykjavíkurborgar. Af niðurstöðum er ljóst er að styðja þarf sérstaklega við starfsfólk og stjórnendur í grunnskólum. Það er fagnaðarefni að nú standi til að gera þessar kannanir árlega og unnið verði markvisst með niðurstöður með stjórnendum í skóla- og frístundastarfi. Starfsmannakannanir eru sérstaklega mikilvæg verkfæri til að styðja við skólasamfélög þegar nýjir stjórnendur taka við.”

Liður 2. Lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 30. mars 2017, varðandi nemendur sem reglulega ógna öryggi og/eða trufla verulega skólastarfið vegna hegðunar- og atferlisvanda í skólastarfinu auk samantektar varðandi málið. “Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum þakkar fyrir mikilvæga samantekt varðandi málefni barna sem reglulega ógna öryggi og eða trufla skólastarf vegna hegðunar og atferlisvanda og væntir þess tími aðgerða sé komin,  að kerfin fari að vinna betur saman í þágu barna í borginni. Að sérfræðiþjónustan, skólaþjónusta grunnskólanna sem staðsett er á þjónustumiðstöðvunum þjóni grunnskólum sem allra best í þágu nemenda.  Barn á aðeins eina æsku, og þann tíma sem barn er án þjónustu er erfitt að bæta upp síðar. Skortur á þjónustu við eitt barn getur gert skólagöngu þess óbærilega og á sama tíma haft neikvæð áhrif á skólagöngu barna í sömu bekkjardeild eða skóla.”

 

117. fundur, 6. apríl 2017, sjá fundarge

Í tengslum við umsókn um stofnun og rekstur sjálfstæðs rekins sérskóla í Reykjavík og umsókn um starfsleyfi fyrir þróunarskóla, sjálfstætt starfandi sérskóla “Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum þakkar fyrir góða kynningu og fagnar þessu framtaki og vonast til að hægt verði að koma á samstarfi sem þessu. Skóli eins og Arnarskóli yrði alvöru valkostur fyrir foreldra barna með fötlun.”

 

116. fundur, 22. mars 2017, sjá fundargerð

Lögð fram skýrslan Menntun fyrir alla á Íslandi. Úttekt á framkvæmd stefnu um menntun án aðgreiningar á Íslandi.  “Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum þakkar fyrir góða kynningu ráðuneytisins og fagnar útkomu þessarar skýrslu og ekki síst þeirri breiðu samstöðu sem skapast hefur meðal ráðamanna að fylgja niðurstöðum markvisst eftir.”

Varðandi innritun nemenda í framhaldsskóla og bréf mennta- og menningarmálaráðuneytisins um breytingu á reglugerð um innritun í framhaldsskóla.  “Áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna telur brýnt að skóla- og frístundaráð skori á nýjan ráðherra menntamála að hann felli úr gildi heimild framhaldsskólanna í nýlegri reglugerð sem snýr að því að geta nýtt sér niðurstöður samræmdra könnunarprófa sem viðbótargögn við inntöku nemenda í framhaldsskóla. Áheyrnarfulltrúi foreldra telur varhugavert að gefa hæfnimiðuðum samræmdum könnunarprófum aukið vægi með þessum hætti, það er mótsögn við skilgreind markmið þeirra. Framhaldsskólarnir hafa ítrekað fullyrt að þeir séu fullfærir um að meta nemendur út frá hæfnimiðunum lokeinkunnum þeirra úr grunnskóla.”

22. febrúar, sjá fundargerð

Ytra mat í skóla- og frístundastarfi.  Áheyrnarfulltrúi foreldrar barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun: “Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum þakkar fyrir góða kynningu á niðurstöðum ytra mats í grunnskólum. Áheyrnarfulltrúinn telur mikilvægt að þessar vönduðu úttektir, mat á skólastarfi, nýtist til umbóta í skólastarfi og að umbótaáætlanir sem skólum er gert að skila inn verði birtar á heimasíðu skólanna og heimasíðusvæði Reykjavíkurborgar á sama hátt og matsskýrslurnar sjálfar. Gott væri að einnig að birta viðmið um gæði foreldrasamstarfs á heimasíðu SFS þar sem önnur viðmið vegna mats á skólastarfi eru vistaðar.

Vegna svars sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs við fyrirspurn áheyrnarfulltrúa um fundartími og skipulag funda skóla- og frístundaráðs.  Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi bókun: “Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum þakkar fyrir svar við fyrirspurn um fundarskipulag skóla- og frístundaráðs, deildarskiptingu fundarefna. Þetta er í annað sinn sem áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum leggur fram fyrirspurn sem þessa til ráðsins um endurskoðun fundartíma og fundarskipulags. Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum skilur ávinning fyrir kjörna fulltrúa og starfsmenn sviðsins sem felst í því að að taka þátt í umræðu um mál óháð skólastigum í sameinuðu ráði leik- grunn- og frístundamála. Það er líka áhugavert fyrir lögbundna áheyrnarfulltrúa að geta tekið þátt í heildstæðri umræðu um skólamál. Skóla- og frístundaráð er stærsta ráðið innan borgarkerfisins, en það hefur jafnframt þá mikilvægu sérstöðu að hafa mikinn fjölda lögbundinna áheyrnarfulltrúa, alls 8 manns, síðan bætast við embættismenn og starfsmenn sviðsins frá ýmsum fagskrifstofum. Lj st er að aðstæður og aðkoma áheyrnarfulltrúa er nnur á þessum fundum, þeir eru t.a.m. í annarri vinnu og fundir ráðsins taka lungan úr vinnudegi flestra, sem getur verið hindrun fyrir þátttöku. Áheyrnarfulltrúi leggur áherslu á mikilvægi þess að endurskoða fundartíma ráðsins reglulega og hann taki mið að ólíkri aðkomu þátttakenda.”

108. fundur, 9. nóv. 2016, sjá fundargerð Um ályktanir kennara í grunnskólum í Reykjavík varðandi kjaramál. Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum lýsir yfir þungum áhyggjum af alvarlegu ástandi í grunnskólum borgarinnar og vill geta þess að samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík hafa skorað á stjórnvöld, ríki og sveitarfélög að sammælast í eitt skipti fyrir öll um forgangsröðun í þágu menntunar og velferðar barna. Samtökin hafa nýlega ályktað um að stjórnvöld taki ábyrgð á framkvæmd eigin skólastefnu, skóla án aðgreiningar, að þau meti stjórnendur, kennara og annað starfsfólk skólanna að verðleikum sem hafa árum saman reynt að reka grunnskólana við óásættanleg skilyrði.

Rekstur grunnskólanna sé ábyrgð sveitarfélaganna, það sé á ábyrgð sveitarfélagsins að krefja ríkið um nýja tekjustofna telji þeir vera rangt gefið. Á þeim 20 árum frá því að grunnskólarnir fluttust yfir til sveitarfélaganna hafi um 100.000 börn útskrifast úr grunnskóla og hafi mörg þeirra ekki notið að fullu þeirrar þjónustu sem þau eiga rétt á. Það hafi tekið ríkið og sveitarfélög 20 ár að semja um þjónustu talmeinafræðinga við börn. Enn eigi eftir að skýra verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og semja um önnur málefni barna á sviði velferðarþjónustu innan skólakerfisins og nefna ýmiss konar sérfræðiþjónustu, til dæmis við börn með fjölþættan vanda og börn með ADHD. Skólakerfið sé að bregðast þessum börnum og fjölskyldum þeirra daglega. Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum í Reykjavík vonast til að betri fjárhagur Reykjavíkurborgar og ríkisins skili sér í að betri kjörum og vinnuumhverfi starfsmanna grunnskólanna og öflugri grunnþjónustu við börn og ungt fólk sem eru að hefja lífið og sérstaklega þá sem standa höllum fæti í skólakerfinu.

26. okt. 2016, sjá fundargerð Vegna ytra mat og þátttöku fulltrúa foreldra og nemenda í skólaráð. Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum þakkar fyrir góða kynningu um ytra mat í grunnskólum í Reykjavík. Áheyrnarfulltrúi ítrekar mikilvægi þess að fulltrúar foreldra og nemenda og fulltrúar í skólaráði hvers skóla fái ávallt boð um að taka þátt í kynningu úttektaraðila á niðurstöðum matsins ásamt starfsfólki skólans. Áheyrnarfulltrúi telur jafnframt gagnlegt að fleiri viðmið SFS en viðmið um mat á gæði kennslustundar fylgi niðurstöðum ytra mats grunnskóla, má þar nefna td. viðmið SFS um gæði foreldrasamstarfs og viðmið SFS um framkvæmd og áhrif stefnu um skóla án aðgreiningar. Þetta myndi geta stuðlað að betri kynningu þessara mikilvægu viðmiða fyrir alla aðila skólasamfélagsins.

12. okt. 2016, sjá fundargerð

Í tengslum við skýrsluna Talþjálfun barna í leik- og grunnskólum, dags. 13. maí 2016. Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum fagnar tillögum starfshóps um talþjálfun barna og að nú sé skýrt hvað sé á ábyrgð ríkis og hins vegar sveitarfélags varðandi málefni barna með þörf fyrir talmeinaþjónustu barna. Áheyrnarfulltrúi foreldra vill minna á að enn eru nokkur málefni barna á svokölluðu gráu svæði hvað varðar verkskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga á sviði velferðarþjónustu, má þar nefna börn með þörf fyrir sérfræðiþjónustu, börn með fjölþættan vanda og börn með ADHD greiningu. Mikilvægt er nú að borgin veiti þessa grunnþjónustu, börn eiga bara eina æsku.

28. sept. 2016, sjá fundargerð

Um stöðu ráðninga í leikskólum, grunnskólum og frístundaheimilum Reykjavíkurborgar. Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum telur brýnt að svona alvarleg staða í ráðningarmálum í skóla- og frístundastarfi í borginni endurtaki sig ekki næsta haust. Margir telja að þessi staða í haust hafi verið fyrirséð vegna uppgangs í þjóðfélaginu og fjölgunar nemenda, sjaldan eða aldrei hefur verið jafn erfitt að manna skólana. Samkvæmt nýlegum spám er reiknað með að á næstu 3 árum verði til um 10.000 störf tengd aukningu ferðamennsku, atvinnuleysi hefur sjaldan eða aldrei verið minna. Ljóst er að mönnun verði mikil áskorun næstu ár nema til komi róttækar aðgerðir.

14. september 2016, sjá fundargerð

Í tengslum við niðurstöður könnunar um viðhorf foreldra grunnskólabarna. “Áheyrnarfulltrúi grunnskólaforeldra fagnar góðum niðurstöðum foreldrakönnunar um líðan, nám og kennslu barna þeirra í grunnskólum Reykjavíkur og hvetur til þess að allir grunnskólar taki þátt þegar skóla- og frístundasvið býður skólunum þátttöku í slíkum könnunum.

Í tengslum við aðgerðir í skólamálum. Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum fagnar því að boðaðar hafi verið aðgerðir í skólamálum í borginni, og að borgarráð vilji nú setja aukið fjármagn til skólanna. Ekki síst er mikilvægt að í fjárhagsáætlun borgarinnar og í úthlutun til SFS sé gert ráð fyrir kjarasamningsbundinni hækkun launa starfsfólks í skóla- og frístundastarfi.

10. ágúst 2016, sjá fundargerð 

Áheyrnarfulltrúar kennara, skólastjórnenda og foreldra barna í grunnskólum fagna því að skóla- og frístundaráð ætli að endurskoða fjármagn til að efla starf náms- og starfsráðgjafa, umsjónarkennara og annarra aðila sem vinna með nemendum sem glíma við kvíða og lítið sjálfstraust. Mikilvægt er að forgangsraða fjármagni með velferð og líðan nemenda að leiðarljósi. Kennarar og stjórnendur finna fyrir auknum kvíða meðal nemenda og aukinni fjarveru vegna þessa og því mikilvægt að bregðast við til að snúa þeirri þróun við.
10. feb. 2016, sjá fundargerð
Varðandi kynningu á drögum á mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar
“Áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna fagnar drögum að nýrri mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar og að meiri áhersla sé nú á réttindi barna en áður. Áheyrnarfulltrúi vill nota þetta tækifæri og leggja áherslu á að fræðsluyfirvöld komi á sameiginlegum fræðslu- og umræðuvettvangi um þessi mál meðal starfsmanna skóla og frístundar á hverri starfsstöð eða í hverju hverfi. SFS gæti leitað til Umboðsmanns barna sem gæti kynnt barnasáttmálann fyrir starfsfólki og fulltrúi sviðsins gæti sagt frá því hvernig sáttmálinn endurspeglast í bæði nýjum grunnskólalögum og nýrri aðalnámskrá grunnskóla. En ein af athugasemdum Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, sem hefur eftirlit með framkvæmd sáttmálans, til Íslands árið 2011 var að þörf væri á eflingu „á fullnægjandi og skipulegri þjálfun allra faghópa sem starfa í þágu og með börnum, einkum löggæslustarfsmanna, kennara, heilbrigðisstarfsfólks, félagsráðgjafa og starfsfólks í hvers kyns umsjá utan fjölskyldu.“

27. jan. 2016, sjá fundargerð
Vegna starfs- og fjárhagsáætlun skóla- og frístundasviðs 2016.
Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram bókun sem skráð er í trúnaðarbók.

25. nóv. 2015, sjá fundargerð
Vegna áskorunar frá félagi fagfólks á skólasöfnum. “Á skólaárinu 2010-11 var niðurskurður á mörgum skólasöfnum borgarinnar. Þetta var í samræmi við sparnaðartillögur skóla- og frístundaráðs á þeim tíma. Í sumum grunnskólum borgarinnar voru skólabókasöfnin varin, annars staðar var starfsemi þeirri verulega skert, lögðust nánast niður sums staðar. Má velta fyrir sér hvort söfnin hafi náð sér á strik eftir þennan niðurskurð. Nú er Reykjavík orðin ein af bókmenntaborgum UNESCO og er ætlað að vera öðrum borgum fyrirmynd sem sækjast eftir stuðningi við að efla eigin bókmenningu. Áheyrnarfulltrúi foreldra tekur heils hugar undir áskorun félags fagfólks á skólasöfnum.
Vegna ráðninga skólastjórnenda: Ráðning skólastjóra er eitt stærsta hagsmunamál hvers skólasamfélags. Kjörnir fulltrúar í skóla- og frístundaráði hafa margir lýst sig opna fyrir því að auka aðkomu foreldra að ráðningu skólastjórnenda. Samkvæmt verklagi sem samþykkt var í skóla- og frístundaráði í júní 2013 eiga skólaráð að fá tækifæri til að koma með tillögur um hæfniskröfur, en þær eru þó einungis ráðgefandi. Skólastjóri ber ábyrgð á samstarfi aðila skólasamfélagsins. Áheyrnarfulltrúi foreldra telur það vera marktækan vitnisburð um samskipta og stjórnunarhæfileika að í skóla sem umsækjandi hefur áður stýrt sé virkt skólaráð og að lögbundin félög foreldra og nemenda séu virk og starfi samkvæmt þeim lögum og reglugerðum sem þeim er ætlað. Fulltrúi foreldra vill nota þetta tækifæri þegar fjallað er um ráðningu skólastjóra að ítreka fyrri bókanir sínar um mikilvægi þess að þegar fjallað er um hæfnisþætti umsækjenda sem hafa gegnt stöðu skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra sé ávallt gengið úr skugga um starfsemi og virkni þessara lögbundnu félaga og ráða sem eru hluti af stjórnskipan hvers skóla samkvæmt grunnskólalögum.

14. okt. 2015, sjá fundargerð
Gervigrasvellir á skólalóðum kynning. “Árið 2010 var fyrst vakin athygli hér á landi á alvarlegum heilsufarslegum áhrifum sem dekkjakurl á sparkvöllum getur haft. Frá þeim tíma hefur annað efni eða aðrar aðferðir verið notaðar til að skapa rétt undirlag á sparkvöllum og ber að hrósa fyrir það. Eftir sitja þó 15 sparkvellir þar sem dekkjakurl er enn til staðar. Fulltrúi foreldra grunnskólabarna skorar á borgina að setja endurnýjun þessara valla í forgang til þess að tryggja börnunum í borginni aðgengi að völlum sem ekki eru hættulegir heilsu þeirra.”

9. sept. 2015, sjá fundargerð
Lýðheilsa og heilsuefling barna og unglinga í leik-, grunn- og frístundastarfi, áfangaskýrsla heilsueflingarhóps kynning. “Fulltrúi foreldra fagnar þessu tímabæra verkefni enda er heilbrigði og velferð einn af grunnþáttum menntunar skv. aðalnámskrá. Samvinna heimila og skóla er mikilvæg til að leggja grunninn að heilsueflingu barna sem mun síðan nýtast þeim áfram í lífinu. Fulltrúi foreldra telur mikilvægt að kynning á verkefninu sé markviss, og til þess fallin að kveikja áhuga og tryggja að skólasamfélag hvers skóla sé tilbúið til að taka við verkefninu. Skólaráðum er ætlað að móta sérkenni og stefnu síns skóla, en á sama tíma eru æ fleiri skyldur og verkefni lagðar á herðar hans. Ef vel á að takast til við innleiðingu á verkefni sem þessu þarf ekki bara áhugi og vilji að vera til staðar, heldur einnig tími og fjármagn. “

29. apríl 2015, sjá fundargerð
Ráðning skólastjórnenda. “Ráðning skólastjóra er eitt stærsta hagsmunamál hvers skólasamfélags. Kjörnir fulltrúar í skóla- og frístundaráði hafa margir lýst sig opna fyrir því að auka aðkomu foreldra að ráðningu skólastjórnenda. Samkvæmt verklagi sem samþykkt var í skóla- og frístundaráði í júní 2013 eiga skólaráð að fá tækifæri til að koma með tillögur um hæfniskröfur, en þær eru þó einungis ráðgefandi. Því er sérstaklega fagnað að nemendur og starfsfólk Réttarholtskóla hafi náð að koma á framfæri skoðunum sínum varðandi ráðningu í starf skólastjóra skólans. Skólastjóri ber ábyrgð á samstarfi aðila skólasamfélagsins. Það ætti að vera marktækur vitnisburður um samskipta og stjórnunarhæfileika að í skóla sem umsækjandi hefur stýrt sé virkt skólaráð og að lögbundin félög foreldra og nemenda séu virk, en skólastjóri ber ábyrgð á stofnun þeirra.
Fulltrúi foreldra leggur til að þegar fjallað er um hæfnisþætti umsækjenda sem hafa gegnt stöðu skólastjóra eða aðstoðarskólastjóra sé ávallt gengið úr skugga um starfsemi og virkni þessara lögbundnu félaga og ráða sem eru hluti af stjórnskipan hvers skóla samkvæmt grunnskólalögum. Jafnvel mætti óska eftir umsögn frá foreldra- og nemendafélagi í þeim skóla.”

Lögð fram áskorun frá SAMFOK og fleiri samtökum og foreldrafélögum, ódags., um skólastefnuna Skóli án aðgreiningar. Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs, dags. 24. apríl 2015, varðandi upplýsingar um stuðning og úrræði við grunnskóla Reykjavíkurborgar.
Áheyrnarfulltrúar foreldra barna í leikskólum og grunnskólum, kennara í grunnskólum og skólastjóra í leikskólum og grunnskólum leggja fram svohljóðandi bókun: “Þjónusta við börn með margþættan vanda þarf að vera samvinnuverkefni allra þeirra sem koma að umönnun og þjónustu við börn. Skortur á samstarfi þessara aðila veldur því að utanumhaldið verður ekki heildstætt. Oft er verið að bregðast við birtingarmynd vandans á hverjum stað fyrir sig sem dugar skammt því ekki er unnið nægilega vel, sameiginlega og markvisst, að því að greina og vinna með rót vandans. Heimilin, skólinn, sveitarfélögin, ríkið, heilbrigðisstofnanir og aðrar þjónustustofnanir fyrir börn í vanda þurfa að vinna saman og vinna þarf heildstætt með einstaklinginn, fjölskylduna og skólaumhverfið til þess að sem bestur árangur náist. Ljóst er að þessum vinnubrögðum getur fylgt mikill kostnaður en jafnljóst ætti að vera að þeir fjármunir muni sparast síðar ef vel tekst til við að leysa úr vanda barna áður en hann verður verulega alvarlegur. Fulltrúar foreldra grunnskólabarna, grunnskólakennara og skólastjórnenda í grunnskólum leggja til að farið verið í sameiginlega vinnu Reykjavíkurborgar, heilbrigðis- og menntamálaráðuneytis við að greina umfang vandans, hvaða úrbóta er þörf og leggja til lausnir og bjóða fram aðkomu sína að slíkri vinnu.”

.
.

TILLÖGUR.

 117. fundur, 6. apríl 2017, sjá fundargerð

Í tengslum við málefni Breiðholtsskóla. “Áheyrnarfulltrúi foreldra leggur til að starfsmanna og foreldrakannanir verði lagðar fyrir árlega fyrstu finm árin í skólum þar sem skólastjóraskipti eiga sér stað og sviðið styðji sérstaklega við skólasamfélög þar sem nýjir skólastjórnendur hafa verið ráðnir.”

8. mars 2017, sjá fundargerð

Niðurstöður Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur á skoðun starfseininga skóla- og frístundasviðs á árinu 2016. Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur fram svohljóðandi tillögu: “Áheyrnarfulltrúi foreldra í grunnskólum leggur til að árlegar niðurstöður heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur vegna skoðunar á grunnskólum í Reykjavík verði gerðar opnar og aðgengilegar á vefsvæði Reykjavíkurborgar í samræmi við upplýsingastefnu borgarinnar, á sama hátt og m.a. starfsáætlanir skóla og mat á starfi skóla – og frístundastarfs.”

10. feb. 2016, sjá fundargerð
Varðandi Mentor, upplýsingakerfi grunnskóla
“Áheyrnarfulltrúi foreldra barna í grunnskólum leggur til að SFS fari í viðræður við Mentor um að gera einfaldar endurbætur á aðstandendaspjaldi nemenda og foreldra, í samráði við SAMFOK og Móðurmál. Það er einkum tvennt sem við teljum brýnt að bæta. Annars vegar að útbúið verði sérstakt hak á aðstandendaspjöldum, þannig að t.d. skólaritari geti í upphafi árs hakað við hverjir sitja í skólaráði, eru í stjórn annars vegar foreldrafélags eða nemendafélags, hverjir eru bekkjar- eða árgangafulltrúar. Þetta litla praktíska mál, myndi auðvelda svo verkin að halda utan um þetta. Hins vegar að það verði mögulegt að haka við móðurmál nemenda (hægt að skrá 2-3), tungumál töluð á heimili og hvernig það hentar foreldrum best að taka á móti upplýsingum frá skóla (tölvupóstur, SMS, o.s.fr.v.)”

27. jan. 2016, sjá fundargerð
Vegna innleiðingar nýs námsmats í grunnskólum og gildistöku nýs einkunnakvarða við lok grunnskóla vorið 2016.
“Áheyrnarfulltrúi foreldra leggur til að skóla- og frístundasvið og skóla- og frístundaráð Reykjavíkurborgar taki forustu og óski eftir frestun á gildistöku nýs námsmats við lok grunnskóla sem á að taka gildi vorið 2016. Þann 9. september og 25. nóvember á síðasta ári lagði áheyrnarfulltrúi foreldra fram fyrirspurn varðandi innleiðingu nýs námsmats í grunnskólum, hvort skóla- og frístundasviði væri kunnugt hver staðan væri varðandi innleiðingu í einstökum hverfum eða skólum borgarinnar. Ekki hafa borist svör við þeirri fyrirspurn, nú þegar skólaárið er hálfnað. Í mörgum grunnskólum í Reykjavík hefur nemendum og foreldrum lítt eða ekki verið kynnt hvaða viðmið verða notuð til að mæla árangur þeirra í vor við lok grunnskólans. Það er óásættanlegt gagnvart nemendum og foreldrum, alveg óháð þeirri miklu vinnu sem starfsmenn margra skóla hafa lagt á sig. Sumir kennarar hafa einmitt bent á það sem rök fyrir því að halda ótrauð áfram. En það verður hins vegar að gera þá kröfu að kerfið hafi hagsmuni allra nemenda að leiðarljósi, ekki bara þeirra nemenda sem eru svo heppnir að vera í skólum þar sem vel hefur verið að þessu staðið. Það er afar ósanngjarnt fyrir útskriftarárganginn að haldið sé áfram meðan staðan er með þessum hætti. Það verður hreinlega að gera kröfu um það að það liggi skýrt fyrir í byrjun skólaárs hvernig úrfærslu námsmats verður háttað. “
Krækja á greinargerð

25. nóv. 2015, sjá fundargerð
Vegna bókakosts Móðurmáls. “Áheyrnarfulltrúi foreldra leggur til að skóla- og frístundasvið hafi frumkvæði að því að hefja viðræður við Móðurmál, félag tvítyngdra barna og félag fagfólks á skólasöfnum hvernig best fari á því að gera bókakost Móðurmáls, félags tvítyngdra barna sýnilegan og aðgengilegan fyrir börn af erlendum uppruna. Skoðað verði hvort ekki sé hægt að gera ráð fyrir því í fjárhagsáætlun borgarinnar að fé verði veitt til skráningar og hýsingar á þessum bókakosti í Gegni. Þetta myndi samræmast vel umbótaþáttum SFS málþroski, læsi og lesskilningur, fjölmenningu og áherslu á móðurmál, sjá meðfylgjandi greinargerð.” Krækja á greinargerð
Afgreiðsla ráðsins á tillögu áheyrnarfulltrúa foreldra þann 16. des. 2015 (sjá fundargerð) Tillagan var samþykkt.
.