Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra voru afhent í 17. sinn á tuttugasta afmælisári samtakanna þann 16. maí sl.
Formaður Heimilis og skóla, Ketill B. Magnússon, afhenti verðlaunin en Guðni Olgeirsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti, ávarpaði viðstadda fyrir hönd ráðherra.
Söngleikjaverkefni Grundaskóla á Akranesi hlaut Foreldraverðlaun Heimilis og skóla 2012. Markmiðin með söngleikjaverkefninu eru fjölmörg og tengjast þau beint eða óbeint inn í námskrá skólans. Slík verkefni eru hins vegar kostnaðarsöm, tímafrek og eru að mestu leyti unnin utan við hefðbundinn skólatíma. Foreldrar hafa stutt þessi verkefni með mikilli sjálfboðavinnu og öflugri þátttöku með börnum sínum. Aðkoma foreldra er margvísleg og mikilvæg því mörg verk þarf að vinna við slíka uppsetningu og verkefnið eflir skólabraginn.
Auk Foreldraverðlaunanna sjálfra voru veitt Hvatningarverðlaun og Dugnaðarforkaverðlaun:
Hvatningarverðlaun 2012 hlaut Þorpið – þekkingarsamfélag en fyrir því fer Ragnheiður Kristinsdóttir iðjuþjálfi og foreldri í Laugarnesskóla. Verkefnið er starfrækt innan Laugarnesskóla og miðar að því að styðja við foreldra þeirra barna sem þurfa sérstakan stuðning innan skólakerfisins og byggist á jafningjafræðslu og þekkingarmiðlun.
Dugnaðarforkaverðlaun 2012 fékk Þóroddur Helgason, fræðslustjóri, fyrir ötult starf í þágu foreldra í Fjarðabyggð.
Hægt er að skoða tilnefningar hér í bæklingi Foreldraverðlaunanna 2012.