Foreldrafélög í grunnskólum eru nú lögbundin og foreldrar grunnskólabarna sjálfkrafa aðilar að þeim.
Í aðalnámskrá grunnskóla segir: Starfsfólk skóla, nemendur og foreldrar mynda skólasamfélagið í hverjum skóla. Og samkvæmt 9. grein grunnskólalaga er skylda að hafa foreldrafélag í skólum. Hlutverk foreldrafélags er að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimila og skóla. Foreldrafélagið setur sér síðan reglur um kosningu fulltrúa sinna til setu í skólaráði. Lögum samkvæmt er skólaráð samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald.
Skilningur laganna er að foreldrar eigi með sér samfélag eða vettvang þar sem þeir taka þátt í lýðræðislegu starfi skólanna. Til að fyrirbyggja misskilning þá eigum við ekki við að foreldrar séu skyldugir til að greiða árgjald til foreldrafélaga enda væri það brot á reglum um félagafrelsi. Foreldrum er þó að sjálfsögðu frjálst að greiða slíkt gjald kjósi þeir það.
Sem foreldri barns í grunnskóla er maður partur af foreldrasamfélaginu sem á sér lýðræðislegan vettvang í foreldrafélaginu og skólaráði. Ljóst er að ef allir foreldrar myndu víkja sér undan því að vera partur af foreldrasamfélaginu í gegnum foreldrafélagið þá væri ekki hægt að uppfylla lagaskyldur um stofnun foreldrafélags.
Vegna þess að foreldrafélag eru lögbundin og foreldrar skilgreindir aðilar að skólasamfélaginu þá má segja að foreldrar grunnskólabarna séu sjálfkrafa aðilar að því félagi/þeim vettvangi um leið og barn þeirra innritast í grunnskóla.
Við þetta er að bæta að við vonum auðvitað að foreldrar líti almennt ekki á aðild sína að vettvangi foreldra sem íþyngjandi, heldur tækifæri til að taka virkan þátt í að styðja skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla samstarf heimila og skóla.