Skuggamynd af börnum að leik

Stjórn SAMFOK hefur sent eftirfarandi ályktun til neðangreindra aðila.

 

Borgarstjórinn í Reykjavík

Skóla- og frístundasráð Reykjavíkurborgar

Velferðarráð Reykjavíkurborgar

Samband íslenskra sveitarfélaga

Félag grunnskólakennarara

Menntamálaráðuneytið

 

Ályktun stjórnar SAMFOK vegna alvarlegs ástands í grunnskólum

 SAMFOK, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík lýsa yfir þungum áhyggjum af stöðunni í grunnskólum borgarinnar. Skorað er á stjórnvöld, ríki og sveitarfélög að sammælast í eitt skipti fyrir öll um forgangsröðun í þágu menntunar og velferðar barna. SAMFOK skorar jafnframt á stjórnvöld að taka ábyrgð á framkvæmd eigin skólastefnu, skóla án aðgreiningar og að þau meti stjórnendur, kennara og annað starfsfólk skólanna að verðleikum sem hafa árum saman reynt að reka grunnskólana við óásættanleg skilyrði.

Auðsýnt er að með langvarandi aðgerðarleysi sínu eru stjórnvöld að brjóta á rétti barna og standa í vegi fyrir jöfnum rétti þeirra til náms og þroska. Rekstur grunnskólanna er á ábyrgð sveitarfélaganna og ef þeim finnst rangt gefið þá er það einnig á þeirra ábyrgð að krefja ríkið um nýja tekjustofna. Samtökin fagna boðaðri sókn Reykjavíkurborgar í skólamálum sem kynnt var í haust en meira þarf til.

Á þeim 20 árum frá því að grunnskólarnir fluttust yfir til sveitarfélaganna hafa um 100.000 börn útskrifast úr grunnskóla. Mörg þeirra hafa ekki notið að fullu þeirrar þjónustu sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum. Það tók ríki og sveitarfélög til að mynda 20 ár að semja um þjónustu talmeinafræðinga við börn. Sá samningur mun án efa styðja vel við metnaðarfullar læsisstefnur sveitarfélaganna og markmið þjóðarsáttmála um læsi.

Enn á þó eftir að skýra verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga og semja um önnur málefni barna á sviði velferðarþjónustu innan skólakerfisins. Þar má nefna ýmiss konar sérfræðiþjónustu, til dæmis við börn með fjölþættan vanda og börn með ADHD. Skólakerfið er að bregðast þessum börnum og fjölskyldum þeirra daglega. Það er brýnt að sveitarfélögin knýi á um að lokið verði við að semja við ríkið um þessi og önnur grá svæði í skólakerfinu og velferðarþjónustu barna.

SAMFOK vonast til að betri fjárhagur Reykjavíkurborgar og ríkisins skili sér í öflugri grunnþjónustu við börn og ungt fólk sem eru að hefja lífið og sérstaklega þá sem standa höllum fæti í skólakerfinu.

Afrit sent til:

Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar

Velferðarráðuneytis

Velferðarráðs Reykjavíkurborgar

 

Ályktun SAMFOK vegna alvarlegs ástands í grunnskólum 2016