Áskorun
Neðangreind áskorun var send til alþingismanna, borgarfulltrúa í Reykjavík, Sambands íslenskra sveitarfélaga og fjölmiðla í nafni þeirra samtaka og félaga sem að neðan eru rituð.
Áskorun
Skólastefnan „Skóli án aðgreiningar“ er metnaðarfull stefna. Til þess að sú skólastefna gangi upp þarf hins vegar að tryggja stuðning og þjónustu við öll börn. Í dag er staðan þannig að þjónusta og stuðningur við börn með hegðunarvanda, kvíða, tilfinningavanda, geðræn vandamál, málhömlun, vímuefnavanda og þroskahamlanir er engan veginn viðundandi. Biðlistinn á BUGL, Þroska- og hegðunarstöð og Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins er meira en ár, algengt er að biðlisti hjá talmeinafræðingum sé 12-18 mánuðir og dæmi eru um að börn í ákveðnum hverfum Reykjavíkurborgar, svo dæmi sé tekið þurfi að bíða í 2 ár eða meira eftir greiningum og þjónustu. Á meðan beðið er eftir þjónustunni vex vandinn og verður í sumum tilfellum óyfirstíganlegur fyrir bæði skólann og heimilin.
Í þriðju grein Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna segir:
Allar ákvarðanir eða ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu byggðar á því sem er börnum fyrir bestu. Setja á lög og reglur sem tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Aðildarríki eiga að sjá til þess að stofnanir og þjónusta sem annast börn uppfylli reglur sem stjórnvöld hafa sett, sérstaklega um öryggi, heilsuvernd, fjölda og hæfni starfsmanna og yfirumsjón.
Við skorum á sveitarfélög og ríki að bregðast nú þegar við og uppfylla ákvæði laga og Barnasáttmálans um stuðning og þjónustu við börn í vanda. Hvert og eitt barn er dýrmætt og á aðeins eina æsku, þann tíma sem barn er án greiningar og/eða þjónustu er erfitt að bæta upp síðar.
Það sem bæta þarf er að: uppræta biðlista og grípa fyrr inn í mál, áður en vandinn er orðinn óyfirstíganlegur, auka sérfræðiþjónustu í skólum, styðja betur við fjölskyldur og fjölga meðferðarúrræðum fyrir börn í miklum vanda.
Ljóst er að skortur á þjónustu við eitt barn getur gert skólagöngu þess óbærilega og jafnvel haft verulega neikvæð áhrif á skólagöngu barna í sömu bekkjardeild eða skóla.
SAMFOK
Kennarafélag Reykjavíkur
Félag skólastjórnenda í Reykjavík
Sjónarhóll
Barnaheill
Olnbogabörn
Umboðsmaður barna
Foreldrafélag Háaleitisskóla
Foreldrafélag Breiðholtsskóla
Foreldrafélag Grandaskóla
Foreldrafélag Foldaskóla
Foreldrafélag Ölduselsskóla
Foreldrafélag Árbæjarskóla
Foreldraráð Hafnarfjarðar
Einhverfusamtökin
Foreldrafélag Vættaskóla
Foreldrafélag Vogaskóla
Foreldrafélag Laugarnesskóla
Foreldrafélag Vesturbæjarskóla
Foreldrafélag Austurbæjarskóla
Unicef
Heimili og skóli
Foreldrafélag Hólabrekkuskóla
Foreldrafélag Selásskóla
Foreldrafélag Háteigsskóla
Foreldrafélag Grunnskóla Seltjarnarness
Foreldrafélag Kelduskóla
Foreldrafélag Hlíðaskóla
Foreldrafélag Húsaskóla
Málefli
Foreldrafélag Langholtsskóla