SAMFOK – samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík og Heimili og skóli – landssamtök foreldra skora á borgaryfirvöld að draga nú þegar til baka ákvörðun um flutning unglinga úr Hamra- og Húsaskóla í Foldaskóla og jafnframt flutning deildar fyrir einhverfa úr Hamraskóla.
Í könnunum meðal foreldra í þessum hverfum hefur komið skýrt fram að afgerandi meirihluti foreldra er andvígur þessum breytingum. Telja foreldrar að hvorki séu til staðar fjárhagsleg eða fagleg rök fyrir breytingunum og að upphaflegar forsendur sameiningarinnar hafi ekki staðist. Þá gagnrýna foreldrar harðlega skort á samráði í ferlinu.
Hefur mennta- og menningarmálaráðuneyti lýst þeirri skoðun að undirbúningi sameiningarinnar sé áfátt í ljósi þessarar miklu andstöðu og að vinna þurfi frekar að sáttum í málinu. Samtökin taka undir þetta og gjalda varhug við því að ráðist sé í svo umfangsmiklar breytingar á skólastarfi án þess að foreldrar upplifi raunverulegt samráð.
F.h. SAMFOK, Margrét Valgerður Helgadóttir formaður
F.h. Heimilis og skóla, landssamtaka foreldra, Ketill B. Magnússon formaður