Hvað er foreldrafélag?
Foreldrafélag er félag foreldra sem vinnur að ýmsum málum tengdum skólanum og nemendum hans. Í félaginu eru allir foreldrar sem eiga börn í viðkomandi skóla. Ekki þarf að sækja sérstaklega um að vera meðlimur.
Foreldrafélagið er rekið af stjórn sem er mynduð af foreldrum sem eru kosnir í stjórn yfirleitt á aðalfundi félagsins ár hvert. Allir foreldrar í skólanum hafa kosningarétt.
Foreldrafélagið getur óskað eftir frjálsum framlögum félagsmanna en ekki er hægt að skylda foreldra til að greiða félagsgjöld. Mikilvægt er að gera foreldrum grein fyrir hvernig framlögin eru notuð.
Foreldrafélög eru lögbundin og er skólastjóri ábyrgur fyrir stofnun þess og sér til þess að félagið fái aðstoð eftir þörfum. Lögin má skoða hér: Lög um grunnskóla nr. 91/2008.
Hlutverk
Hlutverk foreldrafélags er að styðja við skólastarfið, stuðla að velferð nemenda og efla tengsl heimilis og skóla.
Foreldrafélagið á tvo fulltrúa í skólaráði.
Bekkjarfulltrúar eru fulltrúar foreldrafélagsins inn í hverjum bekk eða árgangi. Upplýsingar fyrir bekkjarfulltrúa má finna hér á síðunni: Bekkjarfulltrúar.
Starfshættir
Foreldrafélag hvers skóla ber samkvæmt 9. grein laga um grunnskóla nr.91/2008 að setja sér starfsreglur þar sem meðal annars kemur fram hvernig á að kjósa í stjórn félagsins og einnig hvernig á að kjósa fulltrúa í skólaráð. Eðlilegt er að stjórnin kynni starfsreglurnar á aðalfundi og beri upp til samþykktar.
Algengt er að stjórn félagsins fundi einu sinni í mánuði eða oftar ef þörf krefur.
Félagið getur stutt við starfsemi skólans með ýmsum hætti.
- Með verkefnum sem stuðla að vellíðan og velferð nemenda og bættum námsárangri
- Með verkefnum sem styrkja skólabraginn
- Vera virk og taka vel í þátttöku í skólastarfinu
- Hvetja og hrósa fyrir það sem vel er gert
- Bjóða upp á vettvang fyrir foreldra til að fræðast um og ræða sameiginleg hagsmuna- eða áhugamál
- Virkja alla foreldra til þátttöku í samstarfi
- Skipa bekkjarfulltrúa og styðja þá til að halda utan um formlegt samstarf í bekkjum eða árgöngum
- Sjá til þess að sameiginleg verkefni foreldrafélagsins séu framkvæmd og allir virkjaðir til þátttöku
Stjórn foreldrafélagsins
Í stjórn foreldrafélagsins starfa foreldrar sem eru kosnir af foreldrum. Stjórnendur skólans eiga ekki að skipta sér að kosningu í stjórn félagins.
Stjórn félagsins mótar stefnu þess. Hún ákveður hverjar áherslurnar í starfinu eiga að vera í samráði við aðra foreldra, bekkjarfulltrúa, skólastjórnendur og nemendafélag. Gott er fyrir stjórnina að gera starfsáætlun og leggja drög hennar fyrir samstarfsaðila. Hún hefur svo eftirlit með framkvæmd verkefna samkvæmt starfsáætluninni.
Stjórnin heldur utan um öll gögn, bæði pappírsögn og rafræn gögn.
Stjórnin þarf svo að tryggja að nýir fulltrúar taki við kyndlinum.
Skipulagning foreldrastarfs
Ýmsar leiðir hafa verið farnar í skipulagningu foreldrastarfs og hafa þær kosti og galla. SAMFOK mælir með því að það sé alltaf haft að leiðarljósi að sem flestir foreldrar séu virkjaðir til þátttöku. Með virkri þátttöku kynnast foreldrar öðrum foreldrum og börnum þeirra og þekking þeirra á skólastarfinu eykst.
Rannsóknir sýna að sterkt tengslanet foreldra stuðlar að betri líðan allra nemenda í bekknum, betri námsárangri og minni líkur eru á að þeir nemendur velji neyslu áfengis og annarra vímuefna.
Mikilvægt er að sameiginlegum verkefnum foreldrafélagsins, til dæmsi haust- eða vorgleði, aðventukvöldi eða jólaföndri, öskudagsgleði og páskabingói, sé skipt niður á alla foreldra í skólanum. Auk þess skipti bekkjarfulltrúar verkefnum innan bekkjarins (bekkjarkvöldum, gönguferðum, skipulagningu og utanumhaldi á vinahópum, heimsóknum foreldra í bekkinn o.s.frv.) niður á foreldra. Með þessum hætti er hægt að tryggja að allir foreldrar komi að undirbúningi og framkvæmd eins verkefnis yfir veturinn.