Foreldrarölt

Í sumum hverfum hefur verið farin sú leið að tala um hverfisrölt frekar en foreldrarölt enda ekkert skilyrði að eingöngu foreldrar taki þátt. Það er um að gera að virkja alla íbúa hverfisins enda snýst röltið um að gera hverfið betra.

 

Til hvers er foreldrarölt?

Það eru margar góðar ástæður fyrir því að foreldrarölt er gott, mikilvægasta ástæðan er þó sú að okkur er ekki sama. Okkur er ekki sama um hverfið okkar og okkur er ekki sama um öll hin börnin. Við viljum varna því að unglingar lendi í vanda og við viljum koma í veg fyrir hópamyndanir eftir að útivistartíma lýkur.  Góður andi í hverfinu hefur góð áhrif á öll börnin sem þar búa. Hópamyndanir, einelti, ógnandi hegðun og slæm umgengni hefur áhrif á skólabraginn og alla krakkana í hverfinu. Það er hlutverk okkar, fullorðna fólksins, að gera það sem við getum til að öllum líði vel.

Nærvera fullorðinna þar sem unglingar hafa safnast saman getur haft róandi og fyrirbyggjandi áhrif. Það minnkar líkurnar á því að unglingar lendi í ógnvænlegum aðstæðum eða aðstæðum sem þeim líður illa í. Nærvera foreldra gefur unglingunum tækifæri á að leita aðstoðar ef þörf er á.

 

Af hverju þú?

Sem betur fer búa flestir unglingar á góðum heimilum og fá það aðhald sem þeim er nauðsynlegt og er gert að fara eftir lögbundnum útivistartíma. Það er því alveg eðlileg spurning, hvers vegna þú átt að standa upp úr sófanum og skilja þín börn eftir heima til að fara út og fylgjast með annarra manna börnum. Svo ekki sé talað um þegar barnið þitt er hugsanlega bara í 1. bekk og langt í að það fari að vera úti um helgar.

Með því að taka þátt ertu að hafa áhrif á hverfisbraginn og það félagslega umhverfi sem börnin í hverfinu, þín börn þar með talin, búa í. Því færri sem nota vímuefni, leggja í einelti eða beita ofbeldi því betra og öruggara er hverfið okkar.  Við berum öll ábyrgð á okkar nánast umhverfi og við eigum að sýna þeim sem eiga í vanda að okkur sé ekki saman. Með því að vera sýnileg getum við því brotið upp óæskilegar hópamyndanir sem huganlega gætu haft áhrif á þitt barn.

Með því að taka þátt í foreldrarölti kynnistu líka fleiri foreldrum og hverfinu sem þú býrð í á nýjan hátt.

Foreldrar sem taka þátt í foreldraröltinu geta oft bent á ýmislegt sem betur má fara í hverfinu, t.d. hvar eru sprungnar perur, hvar þarf að lappa upp á bekki eða gera við brotnar girðingar. Þessum ábendingum má koma áleiðis til viðeigandi aðila. Í Reykjavík er hægt að koma ábendingum á framfæri hér: Ábendingar til borgarinnar

Þar að auki ætti hvert foreldri ekki að þurfa að rölta nema 1-2 yfir skólaárið ef allir taka þátt og það ráða nú flestir við það.

 

Hvernig á að hegða sér á foreldrarölti?

  • Verum sjáanleg! Endurskinsvesti eru mikilvæg. Hægt er að sækja um styrki til að kaupa vesti. Fyrir borgina er það gert hér: Hverfissjóður Reykjavíkur.
  • Gott er að vera helst ekki færri en fimm, en röltum þó einhvern vanti.
  • Við erum til takst ef unglingarnir þurfa á okkur að halda.
  • Við þurfum að geta hlustað og leiðbeint án þess að stjórna.
  • Við erum ekki lögregla!
  • Við látum lögregluna vita að foreldrarölt sé í gangi í hverfinu þannig að þau geti brugðist við ef þarf að hringja til þeirra.
  • Við hringum á lögreglu ef upp koma árekstrar, ofbeldi, slys, vímuefnaneysla og/eða sala eða annað sem krefst afskipta.
  • Við látum vita að við séum hluti af foreldrarölti ef við þurfum að kalla til lögreglu.
  • Við höldum trúnaði. Við ræðum ekki við aðra málefni einstaklinga sem við verðum vitni að á röltinu. Börn eiga rétt á því að einkalíf þeirra sé virt, líka börn í vanda!
  • Við tökum ekki myndir af unglingunum og birtum á samfélagsmiðlum eða sendum til fjölmiðla.

 

Skipulag foreldrarölts

  • Gott að hafa nokkra röltstjóra sem sjá um að halda utan um röltið.
  • Bekkjarfulltrúar geta séð um að skipa röltstjóra t.d. í hverjum árgangi.
  • Bekkjarfulltrúar sjá um skipulag innan hvers bekkjar/árgangs eða skipa einhvern í það embætti að halda utan um það.
  • Ákveða þarf hvort fólk skrifi sig niður á ákveðna daga eða hvort á að úthluta dögum og foreldrar sjái þá sjálfir um að skipta ef þeir komast ekki.
  • Hægt er t.d. að setja hvern árgang á einn mánuð og foreldrar sjá svo sjálfir um að skipta sér niður innan þess mánaðar. Gott ef það kemst upp í hefð, þá vita foreldrar alltaf í hvaða mánuði þeir þurfa að rölta út frá því í hvaða bekk barnið er.
  • Passa að skrá niður nöfn, símanúmer og tölvupóst þegar röltið er skipulagt á haustinn.
  • Það getur verið gott að blanda yngri og eldri árgöngum upp með því að skipta árgöngunum í tvennt. Hér má sjá dæmi um skiptingu á milli árganga í PDF skjali
  • Mikilvægt að vera í sambandi við t.d. félagsmiðstöðina og skipuleggja röltið með þeim. Þau vita oft hvar og hvenær þörfin er mest.
  • Það þarf að hafa fastan upphafsstað þar sem hægt er að nálgast vesti og samskiptabók. Þetta getur t.d. verið félagsmiðstöð, söluturn eða verslun í hverfinu.
  • Gott að hafa líka fastan tíma sem byrjað er að ganga og auglýsa þetta innan hverfis. Þá geta fleiri tekið þátt sem ekki fá tölvupóst frá grunnskólunum.
  • Í samskiptabók er gott að skrifa hvort eitthvað markvert hafi átt sér stað. Einhver staður fundist sem vert er að fylgjast með eða eitthvað sem mikilvægt er að næsti hópur viti um.
  • Boðunin skiptir máli. Gott að senda tölvupóst á fólk og minna það á þegar það á að mæta og staðfesta móttöku póstsins. Hringja í það fólk sem ekki svarar tölvupóstinum.
  • Gott getur verið að hafa Facebook hóp til að halda utan um skipulagið og minna fólk á röltið.

 

Tjörnin frístundamiðstöð hefur gefið út handbók um foreldrarölt og er hana að finna hér: Handbók foreldrarölts, leiðarvísir og gagnlegar upplýsingar fyrir foreldrarölt