Margoft hefur komið fram í könnunum og opinberri umræðu að einelti í skólum á sér ekki síst stað á skólalóðinni í frímínútum. Þrátt fyrir ágætar eineltisáætlanir sem skólum er ætlað að starfa eftir virðist ekki hafa tekist að færa þetta til betri vegar enda hefur fjármagn til gæslu í frímínútum minnkað á sama tíma og vitundarvakning hefur orðið varðandi einelti og afleiðingar þess.
Fulltrúi foreldra í Skóla- og frístundaráði Reykjavíkur er Bryndís Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SAMFOK. Hún lagði fram eftirfarandi tillögu á síðasta fundi ráðsins.
Rannsóknir, foreldrakannanir og vitnisburður fórnarlamba eineltis hefur sýnt fram á að einelti er algengt í frímínútum og virðist lítið hafa lagast í þeim efnum síðustu ár. Fulltrúi foreldra leggur til að stofnaður verði starfshópur sem hefur það að markmiði að skoða fyrirkomulag frímínútna og frímínútnagæslu í grunnskólum og koma á tilraunaverkefni í samvinnu við einn eða fleiri skóla borgarinnar með það fyrir augum að finna annað fyrirkomulag á útivist nemenda eða aðra farsæla leið til að auka öryggi, minnka einelti og bæta líðan barna á skólalóðinni.
SAMFOK hvetur foreldra til að kynna sér fyrirkomulag frímínútnagæslu í sínum skóla og fylgjast með hvernig börnum þeirra líður í frímínútum. Góð ráð og hugmyndir um skipulag sem er vel heppnað eru vel þegnar og má senda á samfok@samfok.sveinng.com