Skjáskot úr myndbandi um nemendafélag.

SAMFOK, Umboðsmaður barna og Heimili og skóli frumsýndu í vikunni myndbönd um skólaráð og nemendafélög í grunnskólum að viðstöddum nemendum á unglingastigi Breiðholtsskóla og fleiri góðum gestum. Skúli Helgason formaður skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur og Vigdís Skarphéðinsdóttir nemandi í Kópavogsskóla fluttu ávörp.
Miklar breytingar urðu í lýðræðisátt á aðkomu nemenda og foreldra að skólastarfinu með nýjum grunnskólalögum árið 2008 og er myndböndunum ætlað að skerpa á helstu atriðum. Þau eru hugsuð fyrir aðila skólasamfélagsins og alla aðra sem koma að starfi og rekstri grunnskólanna.
Um er að ræða hreyfimyndir sem fræða áhorfandann um helsta hlutverk og ábyrgð þeirra sem sitja í skólaráði og stjórnum nemendafélaga. Fræðslan er sett fram á aðgengilegan og einfaldan máta með léttu ívafi. Samstarfið um gerð myndbandanna var einkar gagnlegt og ánægjulegt enda mikilvægt að fjalla um hagsmuni, réttindi og skyldur barna og foreldra í skólastarfinu samhliða. Stefnt er að því að gera sams konar myndband fyrir foreldrafélög í grunnskólum á næsta ári.
Við gerð myndbandanna var litið til ákvæða grunnskólalaga sem gilda um nemendafélög, laga og reglugerðar um skólaráð og síðast en ekki síst Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Myndböndin eru unnin í samvinnu við hreyfimyndagerðina FREYJU, með stuðningi Reykjavíkurborgar.

Myndband um skólaráð
Myndband um nemendafélög

 

Ljósmynd af Skúla Helgasyni

Ljósmynd af Vigdísi Skarphéðinsdóttur, nemanda, að flytja ávarp

Ljósmynd af frumsýningargestum