Ljósmynd af Birgittu Báru og Helgu Margréti

Á aðalfundi SAMFOK þann 9. maí s.l. var Helgu Margréti Guðmundsdóttur tómstunda- og félagsmálafræðingi afhent Fjöregg SAMFOK.

Helga Margrét hefur starfað lengi að málefnum skólaforeldra og nemenda, fyrst í Reykjanesbæ, síðan hjá Heimili og skóla og nú síðast í starfi sínu hjá Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis. Virkni borgaranna og lýðræði í skólastarfi hefur verið henni sérstaklega hugleikið og hefur hún af ástríðu barist fyrir réttindum nemenda og foreldra um leið og hún hefur hvatt foreldra til dáða og kallað þá til ábyrgðar. Helga Margrét er hafsjór af fróðleik, hún kom að gerð grunnskólalaganna árið 2008 og er líklega sá aðili sem mesta og besta yfirsýn hefur um þróun foreldrasamstarfs og aðkomu foreldra að skólastarfi hér á landi.

SAMFOK hefur notað starfskrafta og leiðsagnar Helgu Margrétar í mörgum stórum verkefnum á undanförnum árum og vill með þessu þakka henni fyrir frábært samstarf og þann innblástur og hvatningu sem hún hefur verið í starfi SAMFOK.