SAMFOK eru samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík. Stjórn SAMFOK er skipuð sjö foreldrum í grunnskólum Reykjavíkur sem kosnir eru á aðalfundi.
Fulltrúaráð SAMFOK skipa formenn foreldrafélaga og fulltrúar foreldra í skólaráðum í grunnskólum Reykjavíkur. Meðlimir fulltrúaráðsins eru tengiliðir SAMFOK við bakland sitt. Fulltrúaráðið kemur saman tvisvar sinnum á ári. Fulltrúaráðsfundir eru fyrst og fremst samstarfsvettvangur fullrúanna til að skiptast á skoðunum og fá tækifæri til að læra af öðrum.
Markmið SAMFOK eru:
1. að standa vörð um réttindi barna til menntunar og þroska,
2. að beita sér fyrir auknum áhrifum foreldra á skólastarf,
3. að vera sameiginlegur málsvari foreldra gagnvart stjórnvöldum,
4. að efla samstarf aðildarfélaganna og annast sameiginleg verkefni
SAMFOK býður upp á námskeið fyrir stjórnir foreldrafélaga, skólaráðsfulltrúa og bekkjarfulltrúa. Áhersla er lögð á að þátttakendur öðlist skilning á hlutverkum sínum, samspili ólíkra hlutverka og hvernig virkja megi fólk til samstarfs og byggja upp foreldrastarf.
Einstakir foreldrar og foreldrafélög geta leitað til SAMFOK til að fá ráðleggingar vegna vanda sem þeir standa frammi fyrir og fá ábendingar um hvaða leiðir hægt er að fara.
SAMFOK velur áheyrnarfulltrúa foreldra í Skóla- og frístundaráði úr röðum stjórnar eða framkvæmdastjórnar. Áheyrnarfulltrúi veturinn 2015-2016 er Birgitta Bára Hassenstein, formaður SAMFOK og foreldri í Austurbæjarskóla. Áheyrnarfulltrúi tekur virkan þátt í umræðum á fundum, leggur fram bókanir til áhersluauka, setur fram tillögur og kemur með fyrirspurnir . Hann fylgir einnig eftir málum einstakra skóla sem tekin eru fyrir á fundum ráðsins. Æskilegt er að haft sé samband við SAMFOK fyrirfram til að ganga úr skugga um að fulltrúinn hafi allar upplýsingar og gögn í höndum. Netfang SAMFOK er samfok@samfok.sveinng.com