Nýjar reglur um innritun og útskrift nemenda úr Klettaskóla tóku gildi 25. janúar s.l. Reglurnar voru kynntar á fundi Skóla- og frístundaráðs miðvikudaginn 6. febrúar. Framkvæmdastjóri SAMFOK er áheyrnarfulltrúi foreldra grunnskólabarna í ráðinu og lagði fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúi foreldra grunnskólabarna gerir athugasemdir við inntökureglur í Klettaskóla. Meginreglan er sú að foreldrar byrja á því að láta reyna á skólagöngu barna sinna í almennum grunnskóla áður en þeir sækja um í sérskóla og oft að vandlega athuguðu máli.
Samkvæmt nýlegri könnun meðal kennara trúir fjórðungur kennara ekki á stefnuna „Skóli án aðgreiningar „ og aðeins 42% þeirra eru jákvæðir gagnvart henni. Á meðan staðan er þessi er nauðsynlegt að Reykjavíkurborg sýni sérstakan sveigjanleika varðandi inntöku nemenda í sérskóla og sjái til þess að vægt þroskahömluð börn hafi kost á þeim sérúrræðum sem borgin hefur yfir að ráða ef foreldrar telja þau ekki þrífast í almennum grunnskóla.
Sú ákvörðun Reykjavíkurborgar að neita vægt þroskahömluðum börnum um skólavist í Klettaskóla nema þeir séu haldnir viðbótarfötlun getur orðið til þess að börn með væga þroskahömlun falli milli skips og bryggju á meðan starfsaðstæður í grunnskólum bjóða ekki fyllilega upp á að skóli án aðgreiningar virki sem skyldi og stífar inntökureglur í Klettaskóla halda þessum börnum frá skólavist þar.
Hér má sjá nýju reglurnar.
1. Innritun í Klettaskóla.
Klettaskóli er einn af grunnskólum Reykjavíkur og er sérskóli fyrir nemendurmeð þroskahömlun. Skólinn er fyrir nemendur með:
- miðlungs, alvarlega og djúpa þroskahömlun með eða án viðbótarfatlana
- væga þroskahömlun og skilgreinda viðbótarfötlun/fatlanir s.s. einhverfu, blindu, heyrnarleysi og alvarlega hreyfihömlun.
Foreldrar geta sótt um skólavist í Klettaskóla fyrir barn sitt, telji þeir, skólastjórnendur, kennarar eða aðrir sérfræðingar að barnið fái ekki notið kennslu við sitt hæfi í almennum grunnskóla. Foreldrum, sem hyggjast sækja um skólavist fyrir barn sitt skal kynntur skólinn með heimsókn foreldris og barns, að teknu tilliti til aldurs þess og þroska áður en umsókn er tekin fyrir. Umsóknum vegna komandi skólaárs skal skila til skólans fyrir 15. mars ár hvert.
Fagráð um innritun er við skólann og leggur það tillögur sínar um afgreiðslu umsókna, fyrir skólastjóra.
- Tillögur fagráðs taka mið af:
fyrirliggjandi greiningum um fötlun nemandans frá Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins
mati á stöðu nemandans í námi. Í matinu skal taka tillit til heildaraðstæðna nemandans s.s. stöðu hans í einstökum námsgreinum, virkni hans og félagsstöðu og líðan í skóla. Skólastjóri Klettaskóla kallar eftir matinu frá skóla/leikskóla nemandans og sérfræðiþjónustu að fengnu samþykki foreldra og skulu þeim kynntar niðurstöður námsmatsins
hvort aðstæður og möguleikar í skólanum/námshópnum séu líklegar til að stuðla að framförum hjá nemandanum náms- og félagslega og í almennum þroska
hvort aðstæður og þau úrræði sem nemandinn hefur notið eða eru möguleg í heimaskóla séu líkleg til að stuðla að framförum hjá nemandanum náms- og félagslega og í almennum þroska
óskum foreldra og nemandans að teknu tilliti til aldurs hans og þroska
lögum um grunnskóla nr. 91/2008 og reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010 - Starfshættir fagráðs:
Fagráð getur kallað til sín einstaka aðila innan Klettaskóla, s.s. deildarstjóra eða félagsráðgjafa, til að meta hvort aðstæður í skólanum/námshópnum eru líklegar til að stuðla að framförum hjá nemandanum náms- og félagslega og í almennum þroska.
Fagráð getur kallað til sín sérfræðinga utan skólans í námi og skólagöngu fatlaðra barna og sérfræðinga varðandi fötlun barnsins. Gefa skal foreldrum kost á að hafa áhrif á val á sérfræðingum
Fagráð getur eftir þörfum kallað eftir viðbótarupplýsingum varðandi einstaka umsóknir, s.s. frá sérfræðiþjónustu við skóla og/eða falið sérkennara í Klettaskóla að fylgjast með nemandanum í aðstæðum í leik- eða grunnskóla enda hafi foreldrar samþykkt slíkt.
Tillögur fagráðs um innritun vegna komandi skólaárs skulu liggja fyrir 25. apríl ár hvert
Afgreiðsla umsókna:
- Skólastjóri tekur ákvörðun um samþykki eða synjun umsókna á grundvelli
tillagna fagráðs enda hafi fagráð tekið mið af ofangreindu.
Sé umsókn samþykkt tilkynnir skólastjóri það í bréfi til foreldra
Sé lagt til að umsókn verði hafnað skal skólastjóri tilkynna það í bréfi til foreldra, þar sem ákvörðun um fyrirhugaða synjun er rökstudd ítarlega. Gera skal grein fyrir afstöðu til allra sjónarmiða sem færð hafa verið fram og hvernig þau varða heildarhagsmuni barnsins. Gefa skal foreldrum kost á að tjá sig um fyrirhugaða synjun.
Sé ákvörðun tekin um synjun umsóknar, að loknu mati á athugasemdum frá foreldrum, skal skólastjóri tilkynna það í bréfi til foreldra og upplýsa þá um kærurétt skv. 47. gr. Laga um grunnskóla nr. 91/2008.
Afgreiðslu umsókna vegna komandi skólaárs skal vera lokið 20. maí ár hvert
Skipan fagráðs:
- Í fagráði skólans situr skólastjóri og aðstoðarskólastjóri Klettaskóla, sérfræðingur á sviði fatlana barna og sérfræðingur skóla- og frístundasviðs á sviði sérkennslumála
2. Útskrift úr Klettaskóla
Útskrift að loknu grunnskólanámi:
- Hefja skal gerð áætlunar um skólaskil ekki síðar en í 9. bekk.
- Að mótun og gerð áætlunarinnar koma kennarar nemandans í Klettaskóla, fagaðilar um nám hans og skólagöngu innan og/eða utan skólans, nemandinn sjálfur og foreldrar hans.
- Í áætluninni skal taka tillit til heildaraðstæðna nemandans og skulu koma fram upplýsingar um skólagöngu hans, náms- og félagslega stöðu, einstaklingsnámskrá, áform hans um frekara nám og áhugamál.
- Í áætluninni skal koma fram hvernig vali á framhaldsnámi/skóla er háttað, kynningum á þeim möguleikum sem fyrir hendi eru og aðlögun í nýjan skóla.
Útskrift úr Klettaskóla í annan grunnskóla
- Telji fagfólk skólans að nemandi fái betur notið náms og kennslu við hæfi í almennum grunnskóla skulu foreldrar upplýstir um það.
- Ákveði foreldrar að flytja barn sitt í annan grunnskóla meðan á grunnskólagöngu stendur skal gera áætlun um skólaskil og aðlögun í nýjan skóla
- Að mótun og gerð áætlunarinnar koma kennarar nemandans í Klettaskóla, fagaðilar um nám hans og skólagöngu innan og/eða utan skólans, kennari/sérkennari í nýjum heimaskóla, nemandinn og foreldrar hans.
- Í áætluninni skal taka tillit til heildaraðstæðna nemandans og skulu m.a. koma fram upplýsingar um skólagöngu hans, náms- og félagslega stöðu, einstaklingsnámskrá, virkni og líðan. Í henni skal einnig vera áætlun um aðlögun í nýjan skóla og eftirfylgd með nemandanum frá Klettaskóla.