Það er tímafrekt að skrifa góðan og auðskiljanlegan texta fyrir vefsvæði. Eftirfarandi punktar eru samantekt á góðum ráðum sem vert er að höfundar hafi í huga.

Fyrir hvern er skrifað?

  • Hver er markhópurinn – setjið ykkur í spor þess sem mun koma til með að nýta sér þjónustuna og leita eftir efni á vefnum.
  • Nýtið ykkur upplýsingar úr vefmælingum í samvinnu við vefstjóra eða þjónustuaðila til að átta ykkur á hvaða efni notendur eru að leita að.
  • Skrifið gagnorðan texta, forðist málalengingar og haldið kommusetningum í lágmarki. Yfirleitt er auðvelt að setja punkt þar sem margir velja að setja kommu. Forðist að nota skammstafanir.
  • Miðið við að setningar séu ekki mikið lengri en 15 til 20 orð.

Orðaval

  • Opinberir aðilar starfa eftir lögum og reglugerðum. Forðist að nota formleg orð sem algeng eru úr lagaumhverfinu. Vert er að hafa í huga að ýmis orð sem starfsfólki stofnana er tamt að nota eru notendum vefsvæða framandi. Afleiðingin getur orðið sú að þeir skilja ekki alltaf þann texta sem þeim er ætlaður.
  • Gætið að samræmi í orðanotkun á öllu vefsvæðinu.
  • Í langflestum tilvikum er reglan sú að nota tölustafi fremur en bókstafi þegar tölum og númerum er komið á framfæri. Dæmi: 10 í stað tíu.

Á vef gilda ákveðnar reglur við framsetningu efnis.

Hafa þarf í huga að notendur koma æ sjaldnar beint í gegnum forsíðu til að finna efni á vefnum. Þeir koma í gegnum tengla frá öðrum vefjum, samfélagsmiðlum, leitarvélum, RSS veitu eða tölvupósti. Hafið þessar reglur í heiðri.

  • Á forsíðu þarf að vera mjög skýr og stuttur texti.
  • Á milliforsíðum er nánari útskýring og öllu meiri texti um þá þjónustu eða vöru sem þú ert að kynna.
  • Á undirsíðum er notandinn, ef hann hefur farið svo langt, tilbúinn fyrir meiri upplýsingar og hið knappa form lætur undan.

Eftirfarandi atriði skipta máli og má hafa að leiðarljósi við uppbyggingu texta á vefnum:

  • Skipuleggið efnið vel, komið aðalatriðum strax á framfæri og notið efnisgreinar með góðu bili á milli þeirra. Miðið við fjórar til fimm setningar í hverri efnisgrein.
  • Notið lista og „bullet“ punkta til að brjóta upp langar greinar og lýsa aðalatriðum. Ef það eru leiðbeiningar í textanum sem útskýra má í skrefum notið númeraða lista.
  • Forðist HÁSTAFI og skáletrun.
  • Feitletrið allra mikilvægustu orðin en farið þó sparlega með feitletranir.
  • Gætið þess að skipta grein sem er lengri en þrjár til fjórar efnisgreinar upp með lýsandi undirfyrirsögnum
  • Notkun bókamerkja efst á síðum sem vísa í undirfyrirsagnir er til hagsbóta fyrir notendur á löngum síðum.
  • Koma þarf meginatriðum texta vel til skila strax í upphafi.
  • Ekki skrifa langar setningar, gott er að miða við 15 til 20 orð.
  • Ekki miðja fyrirsagnir eða meginmál og forðast ber að jafna hægri kant (e. justify).
  • Auðvelda má notendum að „skima“ yfir texta, t.d. með bili á milli efnisgreina.
  • Nýtið helstu kosti vefsins og setjið tengla í ítarupplýsingar.
  • Notið myndefni ef það styður við textann.
  • Prófið að lokum að lesa textann upphátt. Það er oft prófsteinn á hvort texti sé brúklegur.