Í ljósi alvarlegra ásakana um einelti af hálfu kennara gagnvart nemanda í grunnskóla í Reykjavík vill stjórn SAMFOK beina þeim tilmælum til skólastjórnenda og skólamálayfirvalda í Reykjavík að fara gaumgæfilega yfir verkferla sína og viðbrögð í eineltismálum og benda á að bæði í grunnskólalögum og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna kemur fram skýr og rík skylda til þess að setja hagsmuni og öryggi barna í öndvegi.

Í 13. grein grunnskólalaga segir:

Grunnskóli skal í hvívetna  haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis og njóti hæfileika sinna. Nemendur eiga rétt á því að njóta bernsku sinnar í öllu starfi á vegum skólans.

Skólastjórnendur bera ábyrgð á velferð nemenda sinna og ábyrgð á framkomu og gjörðum starfsfólks skóla. Þeir eiga ekki að líða einelti gagnvart nemendum undir nokkrum kringumstæðum, hvorki frá samnemendum né kennurum. Þegar grunur leikur á að fullorðinn aðili sé að brjóta gegn barni er afar mikilvægt að málið fari strax í réttan farveg. Í ljósi þess hve alvarlegar ásakanir er um að ræða hefur SAMFOK sent erindi til Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkur og óskað eftir upplýsingum um farveg slíkra  mála hjá sviðinu. Ljóst er að ef þær ásakanir sem hafa komið fram, um að skólum sé eftirlátið að gerast rannsakendur og dómarar í eigin brotum, eru á rökum reistar, er um slíka brotalöm í kerfinu að ræða að ekki verður við unað.