SAMFOK sendi erindi í dag til menntamálaráðherra, þar sem óskað er eftir því að ráðuneytið leiðrétti nýlega reglugerð um fyrirlögn og framkvæmd samræmdra könnunarprófa þannig að réttur foreldra og nemenda til að skoða metin verkefni sé virtur, í samræmi við 27. gr. grunnskólalaga. Erindi til Mrn. Réttur til að skoða metin verkefni.

Í þessu samhengi má geta þess að í síðasta mánuði sendu fulltrúar foreldra inn sameiginlega greinagerð til ráðuneytisins um samræmd próf, innritun í framhaldsskóla og útskrift nemenda áður en 10 ára skyldunámi lýkur. Það var gert vegna óskar allsherjarnefndar um samráð við hagsmunaðila um framkvæmd og fyrirkomulag samræmdra könnunarprófa. Greinagerð til Mrn um samræmd próf.

Reykjavík, 29. maí 2017

Mennta- og menningarmálaráðherra

Kristján Þór Júlíusson

EFNI: Ósk um að menntamálaráðuneytið leiðrétti nýlega reglugerð um fyrirlögn og framkvæmd rafrænna könnunarprófa þannig að réttur foreldra og nemenda til að skoða metin verkefni verði virtur, í samræmi við 27. grein grunnskólalaga.

SAMFOK, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík, telur að nýlegar breytingar á reglugerð um fyrirlögn og framkvæmd samræmdra prófa standist ekki grunnskólalög. Í 27. grein laga um grunnskóla er skýrt kveðið á um að nemendur og foreldrar þeirra eigi rétt á upplýsingum um niðurstöður mats, matsaðferðir og matstæki, þar með talið að skoða metin verkefni og prófaúrlausnir.

Í nýlegri reglugerð um rafræn samræmd könnunarpróf kemur hins vegar fram að úrlausnir úr prófum verði gerðar aðgengilegar, en að Menntamálastofnun sé ekki skylt að birta prófin hverju sinni, enda séu þau endurnýtt við að þróa prófabanka fyrir einstaklingsmiðuð samræmd próf. Þetta þýðir að foreldrar og nemendur eiga að geta skoðað svörin, en ekki sjálfar spurningarnar, og dregið af því vitrænar ályktanir hvernig svör þeirra hafa verið metin. Þetta stenst hvorki grunnskólalög né heilbrigða skynsemi. Við teljum enga lagastoð fyrir því að Menntamálastofnun geri einungis úrlausnir úr prófum aðgengilegar, en ekki prófin sjálf. Það eru sjálfsögð réttindi nemenda, óháð aldri, að skoða metin verkefni og próf. Við teljum slæmt að réttur nemenda og foreldra þeirra hafi með þessum hætti verið látinn víkja fyrir hagsmunum stofnunar vegna þróunar prófabanka.

SAMFOK óskar eftir atbeina ráðherra, að reglugerðin verði lagfærð og að lögbundin réttur foreldra og nemenda til að skoða metin verkefni verði virtur. Við teljum brýnt að erindi okkar verði afgreitt án tafar, þar sem sumarfrí eru framundan og umrædd reglugerð tekur m.a. til samræmdra könnunarprófa í íslensku og stærðfræði sem haldin eru að hausti í 4. og 7. bekk.

Með góðri kveðju,

Birgitta Bára Hassenstein

formaður SAMFOK