Mynd af amælisköku sem á stendur: 9. apríl 2013 SAMFOK 30 ára

Fyrir skömmu fagnaði SAMFOK 30 ára afmæli sínu en samtökin voru stofnuð þann 9. apríl árið 1983 af hugsjónafólki úr röðum grunnskólaforeldra. Formönnum foreldrafélaga, fyrrum stjórnarmönnum, skólastjórum, skóla- og frístundaráði Reykjavíkur, samstarfsfólki á skóla- og frístundasviði og öðrum velunnurum SAMFOK var boðið til fagnaðar í Ráðhúsi Reykjavíkur af þessu tilefni.

Mynd af afmælisgestum

Margrét Valgerður Helgadóttir formaður SAMFOK og Oddný Sturludóttir formaður skóla- og frístundaráðs fluttu ávörp og sú síðarnefnda lék undir afmælissöngnum.

Ritnefnd afmælisblaðs SAMFOK kynnti blaðið sem gefið var út í tilefni afmælisins en hana skipuðu Bergþóra Valsdóttir, Guðni Olgeirsson og Unnur Halldórsdóttir.

Bergþóra Valdóttir, Unnur Halldórsdóttir og Guðni Olgeirsson

Guðni og Unnur fengu einnig afhent Fjöregg SAMFOK fyrir ómetanlegt framlag og hugsjónastarf í þágu grunnskólanemenda og foreldra þeirra.

Fyrsta stjórn SAMFOK var sérstaklega heiðruð og ungt listafólk flutti söng- og dansatriði auk þess sem flutt voru gamanmál.  Guðrún Valdimarsdóttir fyrrum formaður SAMFOK stýrði samkomunni með myndarbrag.

Í haust mun SAMFOK standa fyrir málþingi í tilefni afmælisins og stýrir Hildur Björg Hafstein fyrrum formaður SAMFOK undirbúningsnefnd.

Stjórn og starfsmaður þakka öllum þeim sem hafa lagt hönd á plóginn við að gera afmælisárið eftirminnilegt.

Fleiri myndir frá afmælisveislunni má finna hér: Myndir frá 30 ára afmæli SAMFOK