Andlitismynd af Ævari Karlssyni

Hvers vegna eiga foreldrar að vera að skipta sér svona mikið af skólagöngu barna sinna – getur skólinn ekki bara séð um þetta! Viðhorf sem þetta er ekki alveg tilbúningur því miður og ástæðan fyrir því er kannski fjölþætt.

Ef við lítum til landa í kringum okkur svo sem Danmörku, þá er rík hefð fyrir þátttöku foreldra í skóla- og frístundastarfi barnanna. Foreldrar mæta iðulega á viðburði, oftar en ekki báðir foreldrar (sé sú staða í boði), og vinna saman að því að tengja sem tryggustum böndum saman fjölskyldulíf, skólastarf og frístundir í samstarfi við starfsfólk skólanna og frístundastofnana.

En hvernig stendur á því að það getur verið svona erfitt stundum að ná samstarfi sem þessu hérna heima? Er áhuginn svona lítill? Er erfiðara að komast frá vinnu til að sinna þessum störfum? Hvað er það sem þarf að breytast?Hvernig ætli standi á því að það sé mikils metið á starfsferilskrá hjá Dana að hann hafi tekið þátt í starfi foreldrafélagsins í skóla barnsins en að á sama tíma sé þetta jafnvel litið hornauga á Íslandi þar sem þetta gæti tekið tíma starfsmannsins frá mikilvægari verkefnum á vinnumarkaði?

Ég held að um sé að ræða ákveðnar hugsanavillur sem þarf að vinna í að breyta og breytingarnar þurfa að ná í gegnum allt kerfið.

Það þarf að hugsa um hag samfélagsins í stærra samhengi – við erum að ala upp komandi kynslóðir í skólum landsins og með því að taka virkan þátt í því uppeldi byggjum við öflugt og sterkt samfélag.

Ríkið og sveitarfélögin eiga að beita sér fyrir því að gefa réttan tón út í samfélagið með því að skilgreina hvernig boðskapur skólastjórnenda hljómar til foreldra – miðla til allra hvers vegna samvinna allra aðila er eins mikilvæg og hún er. Einnig er á sama hátt mikilvægt að aðvinnurekendur sýni þessu áhuga og veiti svigrúm til þátttöku foreldra í uppeldi barnanna.

Aukin samskipti og samvinna allra aðila auka traust á báða bóga og gerir starf skóla- og frístundastarfsfólks ánægjulegra og auðveldara í alla staði.

Munum að lokum að þakka fyrir góð störf, sama hver á í hlut – kennarar, börnin, foreldrar, makar, samstarfsfélagar eða vinir – það ber ríkulega ávöxtun.

Ævar Karlsson, stjórnarmaður í SAMFOK