Merki SAMFOK

Samtök foreldra grunnskólabarna og skólastjórnendur í Reykjavík  hafa tekið saman höndum um að efla samstarf heimila og skóla í borginni.  Á fyrsta samstarfsfundi stjórna beggja samtaka, sem haldinn var mánudaginn 13. janúar, var áhersla lögð á að ræða það sem gott er og læra má af og svo fyrstu skrefin í að efla samstarfið.

Með nýjum grunnskólalögum árið 2008 breyttist hlutverk bæði foreldra og skólastjórnenda í samstarfinu.  Aukin ábyrgð var lögð á foreldra um að taka þátt í samstarfinu um nám barna sinna og með tilkomu skólaráða opnuðust þeim dyr að samráðsvettvangi um málefni skólans. Á skólastjórum hvílir nú sú skylda að eiga samráð við foreldra um stefnumótun og allar meiriháttar ákvarðanir er varða skólahaldið auk þess að vera ábyrgir fyrir stofnun foreldrafélags í sínum skóla. Ljóst er að foreldrar og stjórn og starfsfólk skóla eru öll að  vinna að sama markmiði sem er að stuðla að árangri og velferð nemenda. Náið samstarf, samræður og góð upplýsingagjöf á báða bóga skiptir höfuðmáli þegar kemur að því að skapa traust og árangursríka samvinnu.

Á fundinum kom fram sameiginleg sýn á nauðsyn þess að skýra ábyrgð og hlutverk allra aðila í skólasamstarfinu og var ákveðið var að hefja gerð gátlista sem taka á helstu þáttum sem snúa að samstarfi foreldra og skólastjórnenda. Gátlistarnir verða sendir öllum skólastjórum og forsvarsmönnum foreldrastarfs í skólum borginnar þegar þeir eru tilbúnir.

Í næstu viku heldur SAMFOK námskeið í samvinnu við Félag skólastjórnenda í Reykjavík fyrir fulltrúa foreldra og þeirra sem starfa að málefnum barna og unglinga á grunnskólastigi, annars vegar í Vesturbæ og hins vegar í Árbæ, Grafarholti, Úlfarsárdal, Ártúnsholti og Norðlingaholti.  Þar verður farið yfir nýju menntalögin og skoðað hvernig efla má félagsauð og samstarf milli skóla og innan hverfa.

Það er von allra að þessi skref verði upphafið að enn betra samstarfi foreldra og skólastjórnenda í borginni.