Skólaráð
Skólaráð starfa samkvæmt lögum nr. 91/2008 um grunnskóla og reglugerð um skólaráð við grunnskóla nr. 1157/2008
Gefin hefur verið út handbók fyrir skólaráð og má finna hana á vef borgarinnar. Ættu allir fulltrúar í skólaráði að kynna sér hana vel: Handbók fyrir skólaráð.
Hvað er skólaráð?
Skólaráð er samráðsvettvangur skólastjóra og skólasamfélags um skólahald. Skólaráð tekur þátt í stefnumörkun fyrir skólann og mótun sérkenna hans. Skólaráð fjallar m.a. um skólanámskrá skólans, árlega starfsáætlun, rekstraráætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið. Skólaráð skal fá til umsagnar áætlanir um fyrirhugaðar meiri háttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla áður en endanleg ákvörðun um þær er tekin. Skólaráð fylgist almennt með öryggi, aðbúnaði og almennri velferð nemenda.
Samkvæmt reglugerð um skólaráð við grunnskóla eru þetta verkefni skólaráðsins:
Skólaráð
- fjallar um skólanámskrá, rekstraráætlun, starfsáætlun og aðrar áætlanir um skólastarfið
- fjallar um fyrirhugaðar meiriháttar breytingar á skólahaldi og starfsemi skóla og gefur umsögn áður en endanlegar ákvarðanir um þær eru teknar
- tekur þátt í að móta stefnu og sérkenni skóla og tengsl hans við grenndarsamfélagið
- fylgist með öryggi, húsnæði, aðstöðu, aðbúnaði og almennri velferð nemenda
- fjallar um skólareglur, umgengnishætti í skólanum
- fjallar um erindi frá skólanefnd sveitarfélags, foreldrafélagi, kennarafundi, almennum starfsmannafundi, nemendafélagi, einstaklingum, menntamálaráðuneyti, öðrum aðilum varðandi málefni sem talin eru upp í þessari málsgrein og veitir umsögn sé þess óskað
- tekur þátt í öðrum verkefnum á vegum skólanefndar að fengnu samþykki sveitarstjórnar
Skólaráð fjallar ekki um málefni einstakra nemenda, foreldra eða starfsfólks skóla.
Hver situr í skólaráði?
Skólaráð skal skipað níu einstaklingum til tveggja ára í senn, tveimur fulltrúum kennara ásamt einum fulltrúa annars starfsfólks í viðkomandi skóla, tveimur fulltrúum nemenda og tveimur fulltrúum foreldra, auk skólastjóra sem stýrir starfi skólaráðs og ber ábyrgð á stofnun þess. Skólaráð velur að auki einn fulltrúa grenndarsamfélags til að sitja í ráðinu eða viðbótarfulltrúa úr hópi foreldra. Allir fulltrúar í skólaráði eiga að hafa varamann.
Stjórn foreldrafélagsins á að setja sér starfsreglur um kosning fulltrúa foreldra í skólaráðið og kjósa á varamenn á sama tíma. Yfirleitt er það gert á aðalfundi foreldrafélagsins.
Á vef skólans þurfa að vera eftirfarandi upplýsingar:
- Nöfn og netföng/símanúmer fulltrúa foreldra í skólaráði.
- Starfsáætlun vetrarins þar sem fram kemur hvað fyrirhugað er að ræða í skólaráðinu á hverjum tíma.
- Fundartímar – dagskrá fundar ráðsins fyrir hvern fund.
- Fundargerðir – ekki seinna en þremur dögum eftir fund.
- Leiðbeiningar til foreldra um hvernig þeir geti borið sig að við að koma jákvæðum og neikvæðum ábendingum um skólastarfið á framfæri.
Hvernig starfar skólaráðið?
Skólastjóri ber ábyrgð á stofnun ráðsins og stýrir því. Í upphafi skólaársins setur ráðið sér starfsáætlun fyrir árið þar sem m.a. kemur fram hversu oft skal funda, hvernig boðað verður á fundina og hvernig undirbúningi skal háttað. Algengt er að fundað sé einu sinni í mánuði. Skólaráðið fundar á daginn, á þeim tíma sem skólinn er opinn. Oft er fundað snemma að morgni.
Einu sinni á ári á skólaráðið að halda einn opinn fund fyrir alla aðila skólasamfélagsins um málefni skólans. Þar að auki á skólaráðið að funda að minnsta kosti einu sinni á ári með stjórn nemendafélagsins.
Mikilvægt er að starf skólaráðsins einkennist af opnum og jákvæðum samskiptum, góðum samstarfsanda, uppbyggilegri og málefnalegri gagnrýni og hvatningu.
Baklandið
Til að skólaráð geti sinnt hlutverki sínu er mikilvægt að fulltrúar þess séu í nánu samstarfi við bakland sitt. Fulltrúar foreldra í skólaráði þurfa að vera í nánum tengslum við stjórn foreldrafélags viðkomandi skóla, bekkjarfulltrúa og aðra foreldra. Þeir þurfa að geta miðlað upplýsingum um starfið og vera móttækilegir fyrir ábendingum frá öðrum foreldrum. Fréttabréf skóla og/eða foreldrafélaga eru mikilvæg í þessu sambandi en ekki síður heimasíður skóla. Hægt er að fara margar leiðir til að styrkja tengsl fulltrúa foreldra í skólaráði við foreldrahópinn.
Nauðsynlegt er að fulltrúar foreldra í skólaráði, stjórn foreldrafélags og bekkjarfulltrúar hittist nokkrum sinnum á ári til að skiptast á skoðunum og miðla upplýsingum.