Stuttu fyrir páskaleyfi mætti formaður SAMFOK ásamt varaformanni SAMKÓP (samtök foreldrafélaga grunnskóla í Kópavogi) og fulltrúa stjórnar Heimilis og Skóla – landssamtaka foreldra á fund í mennta- og menningarmálaráðuneytis vegna samráðs um samræmd próf. Fundurinn var haldinn vegna óskar allsherjarnefndar um samráð við hagsmunaaðila, sjá nánar hér ( fréttin frá 16.mars af síðu MRN hefur verið fjarlægð – hér má sjá frétt RUV um þessa ósk allsherjarnefndar).
Óskað var eftir greinagerð frá fulltrúum foreldra vegna breytinga sem nýverið hafa verið gerðar á menntakerfinu, svo sem reglugerð um samræmd könnunarpróf, innritun í framhaldsskóla og kafla aðalnámskrár sem lýtur að útskrift nemenda áður en 10 ára skyldunámi lýkur. Einnig var óskað eftir athugasemdum varðandi framkvæmd rafrænna samræmdra könnunarprófa.
Úr inngangi greinagerðar fulltrúa foreldra:
“Umfangsmiklar breytingar á menntakerfinu hafa tekið gildi á skömmum tíma. Við teljum misráðið að svo miklar og misvel undirbúnar breytingar hafi ítrekað tekið gildi á lokaári nemenda í grunnskóla, sbr. innleiðingu nýs námsmats og einkunnakerfis og rafrænna samræmdra könnunarprófa. Þá hafa yfirvöld menntamála ítrekað kynnt breytingar á miðju skólaári, sem hafa tekið gildi strax, þrátt fyrir fyrri tilmæli Umboðsmanns Alþingis þess efnis að ráðuneytið gæti þess að tilkynna um breytingar á stjórnsýsluframkvæmd með hæfilegum fyrirvara.
Það er sjálfsögð og eðlileg krafa að í upphafi skólaárs sé nemendum og foreldrum þeirra kunnugt hvernig og með hvaða hætti nám nemenda verður metið við lok grunnskólans og hvernig innritun í framhaldsskóla verður háttað þá um vorið. Forsenda árangurs í námi eða starfi er að vita til hvers er ætlast og fyrir liggi viðmið um árangur. Undanfarin ár hafa þessar forsendur oft ekki legið fyrir á útskriftarári nemenda úr grunnskóla og reglum hefur verið breytt á miðju ári. Þrátt fyrir það hefur viðbrögðum, áhyggjum og óvissu, nemenda og foreldra vegna þessara síðbúnu ákvarðanna oftar en ekki verið mætt með hroka og skilningsleysi. Það er íþyngjandi fyrir alla aðila skólasamfélagsins að svo miklar breytingar taki gildi á lokaári grunnskólans. Við teljum að það eigi að hlífa nemendum á lokaári í grunnskóla við svo umfangsmiklum breytingum og innleiða þess í stað breytingar á fyrri skólastigum t.d. í 8. bekk og leyfa þannig nemendum og starfsfólki skóla að fá góðan tíma til innleiðingar og aðlögunar.
Ráðuneytið tilkynnti nýverið að ekki stæði til að breyta tilgangi samræmdra könnunarprófa, heldur sé það ætlunin að þróa þau þannig að þau þjóni tilgangi sínum betur. Nýlegar breytingar á reglugerð og aðalnámskrá, í tengslum við samræmd próf, teljum við vera misráðnar og óþarfar og helst til þess fallnar að auka vægi samræmdra prófa og stýringaráhrif þeirra. Þessar breytingar stríða gegn yfirlýstum tilgangi samræmdra prófa sem stöðu- og leiðsagnarpróf fyrir nemendur og skóla og auk þess virðist sem sum ný ákvæði reglugerðarinnar standist ekki lög um grunnskóla.
Við innleiðingu umfangsmikilla breytinga á menntakerfinu undanfarin ár hefur framganga mennta- og menningarmálaráðuneytis og Menntamálastofnunar, skortur á faglegri forystu, upplýsingagjöf og leiðsögn, síst verið til þess fallin til þess að skapa frið og ró um skólastarf í landinu. Það verður að gera þá kröfu að yfirvöld menntamála hafi ávallt hagsmuni nemenda að leiðarsljósi. Skólastarf snýst um nemendur, velferð þeirra og árangur í námi, ekki stofnanir, kerfi eða kjörtímabil.”
Greinagerðin í heild má nálgast hér: Greinagerð til Mrn um samræmd próf