Samkvæmt upplýsingum frá RSK verður byrjað að sekta þau samtök/félög sem ekki eru búin að skrá raunverulega eigendur í dag, 3. mars 2020. Sjá frétt hér á Vísi: Senda bréf á næstu dögum til þeirra sem gætu átt von á sekt. Við hvetjum ykkur því til að ganga frá skráningu á raunverulegum eigendum á ykkar samtökum/félögum
Athugið að þetta á við um foreldrafélög, góðgerðarsamtök, öll áhugamannafélög sem eru með sér kennitölu (t.d. starfsmannafélög, veiðifélög og kóra) og einnig þau nemendafélög og ungmennaráð sem eru með kennitölu.
Gott er að byrja á að fletta kennitölunni upp í fyrirtækjaskrá og sjá hvort þar sé einhver skráð/ur fyrir samtökunum: https://www.rsk.is/fyrirtaekjaskra/
Ef þar er skráð/ur einhver sem er enn í stjórn getur viðkomandi skráð sig sem raunverulegan eiganda með rafrænum skilríkjum. Sjá leiðbeiningar hér: https://leidbeiningar.rsk.is/frodi/?cat=183&id=23735&k=6
Ef engin/nn er skráð/ur þar eða viðkomandi er ekki lengur viðloðandi samtökin þarf að skila upplýsingunum inn á pappír.
Til þess að ganga frá skráningu hratt og örugglega þarf að prenta út eyðublað 17.28 hjá RSK https://www.rsk.is/media/rsk17/rsk_1728.is.pdf og fylla það út og undirrita. Blaðið má svo skanna inn aftur og senda á fyrirtaekjaskra@rsk.is eða skila því inn á pappír til RSK á Laugavegi 166.
Hægt er að skrá alla stjórnina, einn stjórnarmeðlim eða nokkra og þarf stjórnin að ákveða hvernig þau vilja hafa þetta.
Ef erfiðlega gengur að ná í alla stjórnina er nóg að einn eða tveir úr stjórn skrái sig til að byrja með og síðan er hægt að breyta skráningunni síðar ef stjórnin kýs að vera öll skráð. Það kostar ekkert fyrir félagasamtök að skrá sig samkvæmt upplýsingum frá RSK 27. febrúar 2020.
Til þess að hægt sé að klára skráningu raunverulegra eigenda þurfa svo samtökin/félögin að skila inn fleiri upplýsingum, en samkvæmt upplýsingum sem fengust frá RSK fimmtudaginn 27. febrúar 2020 er nóg að byrja á að senda inn 17.28 eyðublaðið til að koma í veg fyrir sektir og síðan má skila hinu inn seinna.
Það ferli er hér brotið niður á einfaldan hátt. Athugið að þetta þarf að gera á hverju ári þegar ný stjórn tekur við:
Til að tilkynna stjórn þarf að fylla út eyðublað 17.30, prenta út og undirrita: https://www.rsk.is/media/rsk17/rsk_1730.is.pdf
Skila þarf inn afriti af fundargerð síðasta aðalfundar og skila inn afriti af samþykktum/lögum félagsins/samtakanna, undirrituðum af a.m.k. meirihluta stjórnar eða prókúruhafa.
Fylla út eyðublað 17.28, prenta út og undirrita: https://www.rsk.is/media/rsk17/rsk_1728.is.pdf
Ath. að eyðublaðið með raunverulegum eigendum er með pláss fyrir þrjá aðila en til að skrá fleiri má prenta út eins margar bls. nr. 2 og nauðsynlegt er.
Gögnum má skila í afgreiðslu RSK að Laugavegi 166, 105 Reykjavík eða skanna inn og senda á fyrirtaekjaskra@rsk.is
Hér er textinn á PDF formi til útprentunar: Leiðbeiningar um skráningu raunverulegra eigenda