Mynd af tveimur manneskjum að kyssast. Ekki sést í efri hluta andlits þeirra.

Foreldrafélögum býðst nú að sækja um styrk til að standa fyrir verkefninu „Tölum saman“ í samvinnu við SAMFOK. Markmið verkefnisins er að byggja brú á milli foreldra og unglinga í umræðunni um kynlíf.  Velferðarsjóður Reykjavíkurborgar og Lýðheilsusjóður styrkja verkefnið. Um takmarkaða fjármuni er að ræða og því ekki hægt að verða við öllum styrkumsóknum. Þeir sem fyrstir sækja um ganga fyrir og skilyrði fyrir styrkveitingu er að foreldrafélag hafi greitt árgjald til SAMFOK. Kostnaðarhlutdeild foreldrafélags má sjá hér fyrir neðan.

Mikilvægi fræðslu af þessum toga

Ástæða þess að við teljum þessa fræðslu mikilvæga er hin mikla klámvæðing sem hefur átt sér stað hér á landi á undanförnum árum og sú staðreynd að kynheilbrigði ungs fólk á Íslandi er ekki nægilega gott. Í rannsókn Rannsóknar og greiningar frá okt. 2010 kemur fram að (nær) daglegt áhorf 16–19 ára gamalla ungmenna á fullorðinsklám eða áhorf oft í viku var 44% meðal drengja á meðan meðaltal Norðurlandanna, Færeyja, Álandseyja og Grænlands var 29%. Slíkt áhorf meðal stúkna var aftur á móti tæpt 2% (5). Árið 2009 urðu um 6 stúlkur 19 ára og yngri ófrískar í viku hverri og um helmingur þeirra gengu með barnið hinar fóru í fóstureyðingu. Árið 2010 smituðust um sex einstaklingar 15-25 ára gamlir af kynsjúkdómnum klamydíu á degi hverjum, er það hærri tíðni en á hinum Norðurlöndunum, en sjúkdómurinn getur valdið ófrjósemi.

Um verkefnið

Rannsóknir sýna að þeir unglingar sem fá fræðslu og umræðu heima fyrir byrja seinna að stunda kynlíf og sýna ábyrgari kynlífshegðun. Foreldrar eru oft óöryggir í hlutverki sínu en vilja bera ábyrgð á þessu sviði sem og öðrum í lífi barnsins. Fræðsla veitir þeim oft aukið sjálfstraust, það er því til mikils að vinna.

Fræðslan samanstendur af fyrirlestrum, hópvinnu og pallborðsumræðum fyrir unglinga og foreldra. Verkefnið lýtur að forvörnum og samstarfi skóla og foreldra um mikilvægt málefni sem styrkir foreldra í því að hindra unglinga í að stunda neikvæða hegðun, bætir samskipti og styrkir unglingana í að taka skynsamlegar ákvarðanir varðandi líf sitt.

Fyrirlesarar eru:

Dagbjört Ásbjörnsdóttir mannfræðingur, MA kynja- og kynlífsfræði

Guðbjörg Edda Hermannsdóttir félagsráðgjafi, MA félagsráðgjöf

Sigurlaug Hauksdóttir félagsráðgjafi, MA uppeldis- og menntunarfræðingur

Þær eiga það sameiginlegt að hafa unnið á ólíkum sviðum kynheilbrigðis og skrifað meistararitgerðir sínar um kynheilbrigðismál. Tíu ár eru síðan verkefninu var hleypt af stokkunum og hafa þær stöllur farið víða um land.

Umsókn foreldrafélags um styrk frá SAMFOK og kostnaður

Hægt er að sækja um einfaldan fund (1 ½ tími) eða tvöfaldan fund (2x 1 ½ tími) eftir stærð skólans og fjölda árganga sem boðið er upp á fræðsluna. Fræðslan er miðuð að nemendum í 7.-10. bekk en  ákvörðun um fjölda árganga og hvort sótt er um einfaldan eða tvöfaldan fund er algjörlega í höndum foreldrafélags. Fyrstur kemur, fyrstur fær.

Einfaldur fundur:  kr. 50.000 og þar af greiðir SAMFOK kr. 30.000 (Kostnaður foreldrafélags kr. 20.000)

Tvöfaldur fundur: kr. 85.000 og þar af greiðir SAMFOK kr. 50.000 (Kostnaður foreldrafélags kr. 35.000)

Tímasetning fundanna er kl.17:30 – 19 og/eða 20 – 21:30. Dagsetningarnar sem til boða standa eru eftirfarandi fimmtudagar á vorönn:   24. jan., 31. jan., 7. feb., 14. feb., 21. feb., 7. mars, 14. mars og 21. mars.  Umsókn skal send á samfok@samfok.sveinng.com og mælst er til að sótt sé um a.m.k. þrjár dagsetningar/ tímasetningar og þeim forgangsraðað. Nánari upplýsingar má fá  á www.samfok.issamfok@samfok.sveinng.com eða í síma 5627720.

Viðbótarfræðsla á skólatíma

Skólanum býðst að koma að verkefninu með því að kaupa fræðsluerindi fyrir nemendur á skólatíma áður en kvöldnámskeiðið er haldið. Boðið er upp á kynjaskipta fræðslu fyrir 7.-8. bekk og /eða 9.-10. bekk.  Þátttaka skólans er ekki skilyrði fyrir því að foreldrafélagið geti sótt um að taka þátt í verkefninu en við mælum með því þar sem góð reynsla er komin á að þetta auki líkur á góðum árangri á kvöldnámskeiðinu. Markmið fræðslunnar er m.a. að aðstoða þau við að verða meðvituð og upplýst um ýmiss siðferðileg gildi sem skipta máli fyrir ánægjulega upplifun af kynlífi en hjálpa þeim jafnframt að vera gagnrýnin á ýmsa þætti sem geta haft neikvæð áhrif á það.  Fjallað er um kynþroskann, mótun sjálfsmyndar, áhrif klámvæðingar o.fl.   Skólastjórar fá bréf um þetta en við hvetjum foreldrafélagið til að leita samstarfs.