Lög SAMFOK

Lögin á PDF formi má nálgast hér: Lög SAMFOK samþykkt á aðalfundi 2016

 

Lög SAMFOK, samtaka foreldra grunnskólabarna í Reykjavík.

1. gr.
Heiti félagsins og varnarþing Félagið heitir SAMFOK, samtök foreldra grunnskólabarna í Reykjavík. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Tilgangur Tilgangur samtakanna er:
a) að standa vörð um réttindi barna til menntunar og þroska.
b) að beita sér fyrir auknum áhrifum foreldra á skólastarf.
c) að vera sameiginlegur málsvari foreldra gagnvart stjórnvöldum.
d) að efla samstarf aðildarfélaganna og annast sameiginleg verkefni.

Unnið skal að tilgangi samtakanna meðal annars með því:
a) að fylgjast með framkvæmd grunnskólalaga og aðalnámskrár og beita sér sér fyrir umbótum í skólastarfi.
b) að afla reglulega upplýsinga um starf foreldrafélaga og fulltrúa foreldra í skólaráði og miðla þeim.
c) að stuðla að opinberri umræðu um skóla- og uppeldismál, m.a. með ársþingum, félagafundum, málþingum, ráðstefnum, greinaskrifum og myndun starfshópa.
d) að starfa með öðrum samtökum og félögum sem sinna málefnum barna og foreldra.

3. gr.

Félagsaðilar og félagsgjöld Rétt til aðildar að SAMFOK eiga foreldrafélög í grunnskólum Reykjavíkur og í gegnum þau allir foreldrar grunnskólabarna í Reykjavík. Foreldrafélögin greiða árgjald sem ákveðið er á aðalfundi og er miðað við eitt árgjald á hvern skóla.

4. gr.

Fulltrúaráð Fundur skal haldinn samkvæmt ákvörðun stjórnar eða að kröfu tíunda hluta fulltrúaráðsmanna. Formenn foreldrafélaga grunnskóla Reykjavíkur og fulltrúar foreldra í skólaráði skipa fulltrúaráð SAMFOK. Þeim er heimilt að senda varamann úr stjórn foreldrafélags eða skólaráði í sinn stað. Fulltrúaráðið kemur saman a.m.k. tvisvar á ári og oftar ef þurfa þykir. Fulltrúaráðsfundur að vori er jafnframt aðalfundur SAMFOK. Hver fulltrúaráðsmaður á rétt á að fá ákveðið mál tekið til meðferðar á fulltrúaráðsfundi ef hann gerir skriflega kröfu um það til stjórnar a.m.k. fjórum dögum fyrir boðaðan fulltrúaráðsfund. Meirihluti greiddra atkvæða ræður úrslitum mála á fulltrúaráðsfundum nema annað sé ákveðið í samþykktum þessum.

5. gr.

Aðalfundur SAMFOK Aðalfundur SAMFOK skal haldinn fyrir 1. júní ár hvert. Til aðalfundar skal stjórnin boða með sannanlegum hætti með minnst 8 daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað. Á dagskrá aðalfundar skal m.a. vera: 1. Skýrsla stjórnar. 2. Skýrsla áheyrnarfulltrúa foreldra í Skóla- og frístundaráði Reykjavíkur. 3. Skýrslur nefnda. 4. Reikningar lagðir fram. 5. Árgjald ákveðið. 6. Lagabreytingar. 7. Kosning formanns og annarra stjórnarmanna. 8. Kosning skoðunarmanna reikninga. 9. Önnur mál. Allir foreldrar grunnskólabarna í Reykjavík eiga rétt á setu á aðalfundi með málfrelsi og tillögurétti. Vægi atkvæða er eitt frá hverju foreldrafélagi og eitt frá hverju skólaráði. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum mála, sbr. þó 8. grein.

6. gr.

Stjórn Stjórn SAMFOKs skal skipuð fimm foreldrum grunnskólabarna í Reykjavík. Stjórnarmenn skulu kosnir til tveggja ára í senn, tveir stjórnarmenn annað árið og tveir hitt. Að auki skal kjósa tvo varamenn til eins árs í senn. Formaður er kosinn á aðalfundi en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum og velur a.m.k. varaformann og gjaldkera. Kjörtímabil er tvö ár. Hver stjórnarmaður getur að hámarki setið tvö kjörtímabil samfleytt í stjórninni. Hver formaður getur að hámarki starfað tvö kjörtímabil samfleytt.

Stjórn félagsins getur ráðið framkvæmdastjóra til að sinna daglegum rekstri félagsins í umboði stjórnar. Stjórnin skal gera skriflegan ráðningarsamning við hann þar sem m.a. er kveðið á um ábyrgð, helstu verkefni og starfsskyldur og umboð hans til meðferðar á málefnum SAMFOK í nafni stjórnarinnar. Samþykki stjórnarfundar þarf fyrir öllum meiriháttar skuldbindingum og eignabreytingum.

Stjórn félagsins tekur nánari ákvarðanir um starfsemi félagsins og ber ábyrgð á fjárreiðum þess. Ef framkvæmdastjóri er ráðinn skal hann sjá til þess að bókhald félagsins sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félagsins sé með tryggilegum hætti.

Stjórn félagsins skuldbindur félagið gagnvart öðrum aðilum og er undirskrift formanns nægileg til þess. Ef framkvæmdastjóri er ráðinn getur hann komið fram út á við fyrir hönd félagsins og skuldbundið það í málum sem eru innan verksviðs hans samkvæmt 2. mgr. þessarar greinar.

Stjórnarfundur er ályktunarfær ef meirihluti stjórnarmanna sækja fund. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundum. Nú eru atkvæði jöfn og ræður þá atkvæði formanns (varaformanns) úrslitum. Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

7. gr.

Fulltrúi foreldra í skóla- og frístundaráði Reykjavíkur Stjórn SAMFOK skipar fulltrúa foreldra til setu í Skóla- og frístundaráði Reykjavíkur til tveggja ára í senn og einn til vara. Fulltrúinn skal koma úr hópi stjórnarmanna eða framkvæmdastjórn félagsins. Fulltrúi foreldra starfar eftir erindisbréfi sem samþykkt er á aðalfundi.

8. gr.

Nefndir og starfshópar Aðalfundur, fulltrúaráð og stjórn geta skipað nefndir eða starfshópa til að vinna að undirbúningi og framkvæmd tiltekinna verkefna eða öðrum sérstökum málum sem upp kunna að koma.

9. gr.

Reikningar félagsins og reikningsár Reikningar skulu áritaðir af skoðunarmönnum samtakanna. Reikningsár félagsins er frá 1. janúar til 31. desember.

10. gr.

Breytingar á samþykktum og félagsslit Lögum þessum verður aðeins breytt á aðalfundi með samþykki 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna, enda hafi tillögur um lagabreytingar verið kynntar í fundarboði. Breytingatillögur skulu berast stjórn SAMFOK a.m.k. þremur vikum fyrir aðalfund.

Ákvörðun um slit félagsins verður einungis tekin á aðalfundi eða auka aðalfundi og þarf samþykki tveggja þriðju hluta fundarmanna. Sé ákveðið að slíta félaginu skal jafnframt tekin ákvörðun um hvert eignir félagsins renna, ef einhverjar verða.

Samþykkt á aðalfundi SAMFOK þann 9. maí 2016