Fjöregg SAMFOK – viðurkenning fyrir góð störf í þágu grunnskólabarna í Reykjavík

Fjöregg SAMFOK hefur verið veitt þeim sem hefur, að mati stjórnar SAMFOK, unnið frábært starf í þágu grunnskólabarna í Reykjavík.

Eftirtaldir hafa hlotið fjöregg SAMFOK:

2017

Bryndís Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá Heimili og skóla og fyrrum framkvæmdastjóri SAMFOK hlaut fjöregg SAMFOK árið 2017.

Bryndís starfaði sem framkvæmdastjóri SAMFOK í sjö ár, en hún lét af störfum í janúar 2017. Bryndís starfaði áður sem fulltrúi hjá Bandalagi háskólamanna, upplýsingarfulltrúi hjá Námsgagnastofnun, grunnskólakennari, dagskrágerðarmaður og blaðamaður. Bryndís tók við sem framkvæmdastjóri af Guðrúnu Valdimarsdóttur í byrjun árs 2010.

Bryndís var SAMFOK í augun margra foreldra, formanna foreldrafélaga og skólaráðsfulltrúa. Hún var ómetanlegur stuðningur við stjórnina og alla þá foreldra sem hafa leitað til SAMFOK í gegnum árin. Hún var óþreytandi, ljáði foreldrum eyra í erfiðum málum og var einstaklega lausnamiðuð í nálgun sinni.

Bryndís hélt árlega námskeið fyrir bekkjarfulltrúa, stjórnir foreldrafélaga og skólaráðsfulltrúa hjá okkur í SAMFOK, og einnig námskeið út í hverfunum og fór út í skólana þegar eftir því var óskað.

Þetta voru miklir umbrotatímar þessi ár 2010-2017 sem Bryndís starfaði fyrir SAMFOK. Ný grunnskólalög tóku gildi í lok árs 2008 sem hafði í för með sér aukna ábyrgð og aðkomu foreldra og nemenda í skólastarfi og síðan kom ný aðalnámskrá 2011 með nýja sýn á menntun, nám og kennslu og hvernig við metum nám nemenda. Þessi sömu ár einkenndust af gríðarlega miklum niðurskurði fjármagns til skólamála og kjarabaráttu kennara við sveitarfélögin.

Í starfi sínu sem framkvæmdastjóri SAMFOK tók Bryndís, ásamt stjórn SAMFOK, virkan þátt í stefnumótunarvinnu Reykjavíkurborgar, hún sat í ótal starfshópum, veitti ráðgjöf og umsagnir og síðast en ekki síst sat hún sem áheyrnarfulltrúi grunnskólaforeldra í skóla- og frístundaráði Reykjavíkur.

Bryndís sinnti þessum störfum sínum af einstakri samviskusemi og ávallt með hjartað á réttum stað, hvað er barninu fyrir bestu. Allt skólastarf er jú fyrir nemendur og miðar að því að tryggja velferð þeirra.

Hún minnti okkur stöðugt á það að lykillinn að góðu skólasamfélagi er góð samvinna allra aðila innan skólans, og góð samvinna foreldra um börnin. Samtakamáttur foreldra og að við tölum vel um skóla barnsins, sýnum náminu áhuga er besta forvörnin og stuðlar að bættri líðan og betri námsárangri ekki bara okkar barns, heldur heildarinnar.

Bryndís okkar fór til starfa hjá landssamtökum foreldra, Heimili og skóla þar sem kraftar hennar munu nýtast vel, reynsla og þekking. Við þökkum Bryndísi innilega fyrir samstarfið, vel unnin störf og ómetanlegt framlag til foreldrasamstarfs í Reykjavík.

 

2016

Helga Margrét Guðmundsdóttir, tómstunda og félagsmálafræðingur.
Helga Margrét hefur starfað lengi að málefnum skólaforeldra og nemenda, fyrst í Reykjanesbæ, síðan hjá Heimili og skóla og nú síðast í starfi sínu hjá Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis. Virkni borgaranna og lýðræði í skólastarfi hefur verið henni sérstaklega hugleikið og hefur hún af ástríðu barist fyrir réttindum nemenda og foreldra um leið og hún hefur hvatt foreldra til dáða og kallað þá til ábyrgðar. Helga Margrét er hafsjór af fróðleik, hún kom að gerð grunnskólalaganna árið 2008 og er líklega sá aðili sem mesta og besta yfirsýn hefur um þróun foreldrasamstarfs og aðkomu foreldra að skólastarfi hér á landi.
SAMFOK hefur notað starfskrafta og leiðsagnar Helgu Margrétar í mörgum stórum verkefnum á undanförnum árum og vill með þessu þakka henni fyrir frábært samstarf og þann innblástur og hvatningu sem hún hefur verið í starfi SAMFOK.

2013

Unnur Halldórsdóttir og Guðni Olgeirsson fyrir ómetanlegt framlag og hugsjónastarf í þágu grunnskólanemenda og foreldra þeirra.

2009

Bergþóra Valsdóttir fyrir ómetanlegt framlag til foreldrasamstarfs í grunnskólum Reykjavíkur og Skólasamfélag Norðlingaskóla með Sif Vigþórsdóttur í broddi fylkinga fyrir einstaklega jákvæð viðhorf og vel útfærðar hugmyndir um samstarf foreldra, nemenda og skóla.

2006

Stefán Jón Hafstein, formaður fræðsluráðs Reykjavíkur og Gerður G. Óskarsdóttir fræðslustjóri, fyrir framlag til foreldrastarfs og betra samstarfs foreldra og skóla.

2003

Foreldraráð Seljaskóla, fyrir framlag sitt til að byggja upp samstarf og samskipti milli foreldra og skóla.

2002

Sigrún Magnúsdóttir, formaður fræðsluráðs Reykjavíkur.

2001

Samninganefndir Félags grunnskólakennara og Samband íslenskra sveitarfélaga, fyrir nýja kjarasamninga sem vöktu vonir um að grunnskólinn yrði samkeppnisfær við hinn almenna vinnumarkað um starfskrafta, að kennsludögum fjölgaði og starfi umsjónarkennara efldist.