Undanfarið hefur verið í gangi endurskoðun á reglum um kynningar, auglýsingar og gjafir í skóla- og frístundastarfi og skilaði starfshópur skýrslu í nóvember sem má sjá hér. SAMFOK átti fulltrúa í starfshópnum og að auki var stjórn SAMFOK gefinn kostur á að senda inn umsögn um skýrslu hópsins.

Umsögn stjórnar er eftirfarandi:

SAMFOK ítrekar fyrri afstöðu sína um að SFS falli frá því að setja miðstýrðar reglur um auglýsingar og kynningar í skóla- og frístundastarfi. SAMFOK telur að þessar reglur S.F.S. samræmist illa gildandi grunnskólalögum og aðalnámskrá. En þar er áhersla lögð á aukið svigrúm og sjálfstæði skóla til að móta sína stefnu, sérkenni, efla lýðræðislegt samstarf og mikilvæga tengingu við nærsamfélagið. SAMFOK telur það vel á færi skólastjórnanda í samráði við skólaráð, stjórnir nemenda- og foreldrafélaga að meta og þekkja muninn á óæskilegri markaðssetningu annars vegar og málefnum er varða námið, öryggi, lýðheilsu, forvarnir og heill samfélagsins hins vegar. Eðlilegt er að þessi lýðræðislega umræða sé tekin í skólaráði þar sem skólinn mótar sín viðmið í takt við sínar áætlanir og áherslur, viðhorf skólastjórnenda, nemenda og foreldra. Endurskoðaðar reglur eru ekki jafn afdráttarlausar og eldri reglur heldur er hægt að túlka þær á ýmsa vegu og því kalla þær sjálfkrafa á þessa umræðu. Þetta eitt og sér styrkir SAMFOK í þeirri afstöðu að reglurnar séu óþarfar og ættu að minnsta kosti ekki að heita reglur, heldur viðmið sem skólaráð geta haft til hliðsjónar.

Hvernig taka reglurnar til dæmis á fræðslu, fyrirlestrum eða ritgerðarsamkeppni utanaðkomandi aðila sem styrkt er af fyrirtækjum? Eða heimsóknum rithöfunda og afhendingu auglýsingaefnis á þeirra vegum fyrir jól eða heimsóknum Eurovision keppenda í atkvæðaleit? Í sumum skólum er þetta tengt náminu eða litið á þetta sem menningarlegt innlegg og/eða ánægjulegt uppbrot á skóladeginum. Annars staðar yrði jafnvel litið á eitthvað af þessu sem óæskilega markaðssetningu. Lýðræðislegar umræður og ákvarðanir um þetta ættu að eiga sér stað í skólaráði í samræmi við hlutverk þess og í anda laganna.

Ísland lögfesti Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna árið 2013. Í gildi er mannréttindastefna Reykjavíkurborgar sem var endurskoðuð 2013. Það færi vel á því að skóla- og frístundaráð nýtti krafta sína og hefði frumkvæði að því að kynna skólasamfélaginu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, Mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar, lög um grunnskóla og einstaka þætti nýrrar Aðalnámskrár sem fjalla m.a. um skólaráð, lýðræði og mannréttindi og samstarf við grenndarsamfélagið. Það hefur væntanlega varanlegri áhrif en að setja skólunum óþarflega þröngar skorður í daglegu starfi.

Umsögnin á PDF formi. Umsögn SAMFOK – Kynningar, auglýsingar og gjafir.