Er til fátækt á Íslandi? Hvað er fátækt? Er hægt að uppræta hana?

SAMFOK, Borgarbókasafnið og Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur bjóða nemendum í 7.-10. bekk og foreldrum þeirra til umræðukvölda í tilefni af útgáfu bókarinnar Á morgun er aldrei nýr dagur, þar sem 24 norræn ungmenni skrifa um reynslu sína af því að alast upp við fátækt á Norðurlöndunum. Fjórir ungir íslenskir höfundar eiga sögur í bókinni.

Skömmin sat í litlu stúlkunni. Í fögru, gulli búnu hásæti þar sem hún naut sín. Þar ríkti hún yfir öllu. Hún réði með harðri hendi yfir húsnæði litlu stelpunnar, fjölskyldu hennar og öðrum svokölluðum leyndarmálum sem hún reyndi að grafa, ó svo djúpt, bak við ímynd sína. Hún eyddi öllum peningum sem hún kom höndum yfir í föt svo aðra myndi ekki gruna fátæklegan bakgrunn hennar.

Þórhildur Vígdögg Kristínardóttir

Umræða um fátækt á Íslandi hefur verið áberandi í fjölmiðlum síðustu misserin. Bilið milli þeirra sem mest eiga og hinna, sem minnst hafa á milli handanna, er talið aukast stöðugt. Á sama tíma hefur samfélagsleg áhersla á efnisleg gæði sjaldan verið meiri og unglingar fara ekki varhluta af henni; merkjavörur og snjalltæki þykja sjálfsagður hluti tilverunnar.

Hvernig getum við talað saman um fátækt, svo raddir allra fái að heyrast?

Ég horfi ekki á mömmu en ég veit að hún er vonsvikin. Við erum búnar að rífast svo oft og ég er svo frek, en svo hefur hún líka oft útskýrt fyrir mér með blíðum tón að hass sé ekki dóp heldur læknameðal og að fólk eins og hún noti það gegn verkjum, sjúkdómum og svo hjálpar þetta líka þeim sem líður illa. Herbergið er fyrir fólk sem kemur og kaupir hass en mamma verður að fá pening fyrir mat og allskonar hlutum fyrir mig og bróður minn. Þá fæ ég alltaf samviskubit og svo verð ég reið því við eigum samt svo lítinn pening.

Charlotta Rós Sigmundsdóttir

SAMFOK og Skóla- og frístundavið bjóða foreldrafélögum sérstök kjör á fyrirlestra og kynningu í samstarfi við Borgarbókasafnið. Framlag foreldrafélaganna er að greiða helming kostnaðarins (20.000 kr.), SAMFOK greiðir hinn helminginn og sjá um að auglýsa viðburðinn til foreldra í samstarfi við félagsmiðstöð skólans. Félagsmiðstöðvarnar sjá svo um annan undirbúning og framkvæmd umræðukvöldsins. Efni fyrirlestursins er eftirfarandi:

  1. Kynning á bókinni Á morgun er aldrei nýr dagur og upplestrar höfunda/r.
  2. Samræður um fátækt í umræðuhópum, út frá spurningalista. Stjórnað af verkefnastjóra Borgarbókasafnsins og starfsfólki félagsmiðstöðva.
  3. Samantekt á niðurstöðum og kveikjur í veganesti.

Í boði eru 10 umræðukvöld og gildir fyrst bóka fyrst fá. Opnað hefur verið fyrir bókanir hér: Bóka umræðukvöld.

Mikilvægt er að velja dagsetningu í samráði við forstöðufólk félagsmiðstöðvanna. 

Nánari upplýsingar veita: Dagbjört Ásbjörnsdóttir, verkefnastjóri á Skóla- og frístundasviði, dagbjort.asbjornsdottir@reykjavik.is, Sunna Dís Másdóttir, verkefnastjóri á Borgarbókasafninu og ísl. verkefnastjóri Á morgun er aldrei nýr dagur, sunna.dis.masdottir@reykjavik.is. Einnig má hafa samband við SAMFOK, samfok@samfok.sveinng.com.