Rannsóknir hafa sýnt að virkni foreldra skiptir miklu máli þegar kemur að forvörnum. Hér eru ýmsar upplýsingar um hvernig foreldrar geta aukið hlutdeild sína í lífi barna sinna og hvernig uppteknar fjölskyldur geta fundið stundir til að verja með börnunum sínum og fyrir þau.

Einföld og góð leið til að vera virkir foreldrar er að taka þátt í foreldrastarfi í skóla barnanna okkar. Það eru ekki margar vinnustundir sem þarf til þess að láta gott af sér leiða og eru mörg verkefni sem þarf að sinna sem taka aðeins nokkrar klukkstundir á ári.

Foreldrafélög

Í öllum grunnskólum eiga að starfa foreldrafélög og eru allir foreldrar sem eiga börn í skólanum sjálfkrafa meðlimir í því. Upplýsingar um foreldrafélög er að finna hér: Foreldrafélög.
Að bjóða sig fram í stjórn foreldrafélags er skemmtileg leið til að kynnast nýju fólki, kynnast skóla barnanna betur og hafa jákvæð áhrif á skólann og nærumhverfi hans.

Hér fyrir neðan er hægt að horfa á myndband um foreldrafélag og hér á síðunni er þetta sama myndband með texta á 7 tungumálum auk íslensku: Hvað er foreldrafélag?

 

Bekkjarfulltrúar

Bekkjarfulltrúar eru tengiliðir foreldrafélagsins inn í bekkina. Þeir sinna mikilvægu hlutverki við að halda utan um bekkinn og skapa góðan bekkjaranda í samvinnu við skólann. Bekkjarfulltrúar eiga alls ekki að sinna allri vinnunni í kringum bekkjarstarfið heldur eru þeir meira eins og verkstjórar sem fá fólk með sér í lið til að sinna hlutum eins og foreldrafundum, gerð bekkjarsáttmála og bekkjarkvöldum. Upplýsingar um starf bekkjarfulltrúa má finna hér: Bekkjarfulltrúar.

Við hvetjum bekkjarfulltrúa til að stuðla að því að í bekkjum barnanna geri foreldrar með sér einhvers konar sáttmála. Hægt er að gera einfaldan sáttmála um nokkra hluti sem foreldrar geta komið sér saman um eins og útivistartímann og boð í afmæli og einnig er hægt að nýta sér foreldrasáttmála Heimilis og skóla en allt efni tengt honum er hægt að fá frítt hjá Heimili og skóla, Suðurlandsbraut 24. Einnig er hægt að nálgast allt efnið á heimasíðu Heimilis og skóla: Foreldrasáttmálinn.

Með því að vera bekkjarfulltrúi sinnum við mikilvægu forvarnarstarfi í lífi barnanna okkar, höfum jákvæð áhrif á daglegt umhverfi barnanna og kynnumst nýju fólki.

 

Skólaráð

Í skólaráði sitja níu einstaklingar: Skólastjóri sem stýrir ráðinu , tveir fulltrúar kennara, fulltrúi starfsfólks, tveir fulltrúar nemenda, tveir fulltrúar foreldra og grenndarfulltrúi.

Fulltrúar foreldra sitja í skólaráði í nafni foreldrafélagsins og eiga foreldrafélög að setja sér starfsreglur um hvernig á að standa að kosningu þeirra. Alla fulltrúana í skólaráðinu fyrir utan skólastjóra og grenndarfulltrúa á að kjósa af baklandi þeirra og einnig eiga allir fulltrúar að hafa varamann sem einnig á að kjósa. Ráðið sjálft velur sér svo einhvern aðila til að vera fulltrúi grenndarsamfélagsins. Þessi fulltrúi getur til dæmis komið frá íþróttafélagi í hverfinu eða félagsmiðstöðinni. Einnig er grenndarfulltrúi oft annar fulltrúi foreldra, t.d. formaður foreldrafélagsins.

Allir fulltrúar eru kosnir til tveggja ára og er það því töluverð skuldbinding að bjóða sig fram til setu í skólaráði. Flest skólaráð funda einu sinni í mánuði yfir vetrarmánuðina og er yfirleitt fundað á skólatíma. Að taka þátt í starfi skólaráða gefur foreldrum tækifæri til að hafa mikil áhrif í skólasamfélaginu enda á skólaráðið að fjalla um allar meiriháttar breytingar á skólastarfinu. Upplýsingar um skólaráðin er að finna hér: Skólaráð.

Hér má horfa á stutt myndband um skólaráð en myndbandið má líka finna hér með enskum texta: Hvað er skólaráð?

Foreldrarölt

Fleiri og fleiri hverfi eru að endurvekja foreldrarölt eða hverfisrölt. Hverfisrölt eru mikilvægur þáttur í forvörnum og stuðlar að bættara hverfi og öruggari ungmennum. Ef við leggjumst öll á eitt er lítið mál að halda úti öflugu foreldrarölti yfir vetrartímann. Það sem við þurfum að gefa af okkur er eitt til tvö kvöld í göngu um hverfið okkar í góðum félagsskap. Upplýsingar um foreldrarölt má finna hér: Foreldrarölt.

Ef þið viljið fá aðstoð við að koma á foreldrarölti í ykkar hverfi er hægt að hafa samband við SAMFOK.

 

 

Uppfært 16.10.2019