SAMFOK hefur borist eftirfarandi yfirlýsing:

Dagana 20. mars – 3. apríl stóð hópur foreldra að söfnun undirskrifta meðal foreldra barna í Hamraskóla gegn sameiningu unglingadeildar Hamraskóla við unglingadeild Foldaskóla haustið 2012.

Áskorun undirskriftarlistanna var eftirfarandi:

,,Við undirrituð förum fram á að borgaryfirvöld falli frá ákvörðun sinni frá 19. apríl 2011 um sameiningu unglingadeilda Hamra- , Folda- og Húsaskóla í safnskóla í Foldaskóla”.

Við framkvæmd undirskriftasöfnunarinnar voru það sjálfboðaliðar úr hópi foreldra sem gengu í hús og söfnuðu undirskriftum, en ekki sá hópur sem mest hefur haft sig í frammi gegn sameiningunni. Þaðvar gert til að halda ákveðnu hlutleysi. Stuðst var við ,,Drög að reglugerð um málsmeðferðarreglur varðandi undirskriftarsöfnun vegna óska um almenna atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011″ sem innanríkisráðuneytið hefur lagt fram.

Nú liggja fyrir niðurstöður úr undirskriftarsöfnuninni. Þegar bekkjarlistar voru teknir út í febrúar voru í skólanum 205 börn. Þegar búið er að taka út/sameina skráningar vegna systkina fengum við út að þetta eru 163 heimili.

Þar af voru 17 heimili þar sem einungis var eitt foreldri (hitt foreldrið bjó úti á landi eða erlendis eða var ekki hluti af lífi barnsins af öðrum orsökum).

Þar sem við vildum fá undirskriftir beggja foreldra (í sumum tilvikum foreldris og stjúpforeldris, og í öðrum sóttum við undirskriftir annars kynforeldris í önnur hverfi/sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu) varð heildarfjöldi foreldra 310 talsins. Af þeirri heild náðum við ekki í 9 foreldra, alls höfðum við því samband við 301 eða 97% foreldra.

274 EÐA RÚMT 91% skrifuðu undir að þeir vildu að fallið yrði frá flutningi unglingadeildarinnar í Foldaskóla.

27 EÐA TÆP 9% vildu ekki skrifa undir (Fyrir því voru ýmsar ástæður t.d. að fólk ynni hjá borginni, nokkrir treystu sér ekki til að skrifa undir vegna tungumálaörðugleika og svo voru nokkrir hlynntir sameiningunni).

Af 163 heimilum voru einungis 10 heimili þar sem hvorugt foreldrið skrifaði undir eða 6% heimila – Á TÆPUM 94% heimila skrifaði a.m.k. annar aðilinn undir.

Niðurstaðan lýsir afgerandi vilja foreldra á móti sameiningunni. Óskum við eftir því að hlustað verði á raddir foreldra og íbúalýðræði verði virt.