Yfirlýsing frá SAMFOK vegna Fossvogsskóla

SAMFOK lýsir yfir miklum áhyggjum af málefnum Fossvogsskóla. Nú er ljóst að þær viðgerðir sem farið hefur verið í dugðu ekki til að uppræta vandann og skipta þá næstu skref öllu máli, bæði þegar kemur að heilsu nemenda og starfsfólks skólans og einnig til að byggja upp traust skólasamfélagsins til borgarinnar.

Í rúmlega tvö ár hafa foreldrar bent á að húsnæði skólans væri að valda veikindum hjá börnum og þurft að berjast fyrir því að á þá væri hlustað og fá Eflu að borðinu. Úttekt Eflu sýnir fram á að foreldrar höfðu rétt fyrir sér. Það skiptir öllu máli að fyrirhugaðar framkvæmdir verði vel unnar og í trausti allra sem að skólasamfélaginu koma. Það er því krafa foreldra að Efla verði fengin til að leiða verkefnið og hafa eftirlit með því.

Það er ljóst að það mun taka langan tíma að koma Fossvogsskóla í nothæft ástand. Þykir það mikil bjartsýni að það muni einungis taka eitt skólaár og ljóst að ekkert má fara úrskeiðis til að það náist. Foreldrar eru nú þegar brenndir eftir viðgerðir sem áttu að vera fullnægjandi en er núna á hreinu að voru mjög langt frá því.

Nemendur eru í dag keyrðir með rútu í Korpuskóla í Grafarvogi á hverjum degi, rúmlega 10 km leið. Það er lausn sem var hugsuð til skamms tíma eða fram að lokum þessa skólaárs og er það algjörlega óásættanlegt sem lausn fyrir næsta/næstu skólaár.

Það er ekki hægt að uppfylla kennsluskyldu þegar það fara að minnsta kosti 30-40 mínútur á dag í akstur. Húsnæði Korpuskóla er allt of lítið, það er hannað fyrir 170 nemendur en nemendur Fossvogsskóla eru um 350 og húsnæðið er þar að auki ekki allt í notkun vegna rakaskemmda og hafa bæði börn og starfsfólk sýnt einkenni mygluveikinda eftir flutning í Korpuskóla.

Við hjá SAMFOK höfum einnig áhyggjur af því að starfsmannavelta sé að aukast og að skólinn muni missa frábæra kennara sem kjósa að fara annað enda er álagið ekki síst á þá, hvort sem þeir finna fyrir einkennum myglu eða ekki. Kennarar hafa þurft að halda utan um nemendahópinn í öllu því sem á undan er gengið, aðlagað kennsluna að allt of litlu húsnæði og verið á sama tíma í óvissu varðandi eigin heilsu.

Út frá öllu þessu teljum við að það verði að tryggja það að skólastarf Fossvogsskóla verði í heimahverfi skólans eins fljótt og auðið er, til dæmis með færanlegum kennslustofum. Börnin eiga að geta sótt skóla í sínu hverfi og við biðlum því til borgarinnar að gera allt sem hægt er til að tryggja að svo megi verða.

Reykjavík 1. júní 2021
Ragnheiður Inga Davíðsdóttir, formaður stjórnar
Sigríður Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri

 

Yfirlýsinguna má nálgast hér á PDF formi: Yfirlýsing frá SAMFOK vegna Fossvogsskóla